143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

menningarsamningar.

[14:32]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það eru viðhöfð ýmis stór orð um þessa samninga. Ég tel hins vegar ástæðu til þess að fagna því að við skulum í dag vera í þeirri stöðu að búið sé að senda þá út til menningarráðanna til undirritunar. Vissulega er um 10% niðurskurð að ræða. Ég verð að fagna því sérstaklega að þar skuli vera jöfnuður en ekki skorið niður mismunandi eftir landshlutum. Ég vil benda á að landshlutar eru misjafnlega vel í sveit settir til þess að njóta menningar höfuðborgarsvæðisins. Þar af leiðandi skiptir miklu máli að þessi jöfnuður skuli vera þrátt fyrir að það hafi verið krafa frá þeim landshlutum sem voru nær höfuðborgarsvæðinu að niðurskurðurinn yrði minni á þeim svæðum.

Við vitum það öll og það hefur komið hér fram að menningarsamningarnir hafa haft gríðarlega mikil áhrif á möguleika ungs fólks til þess að fara af stað í menningarsköpun og handverk. Þetta hefur stutt við það bæði í þeirri vinnu og jafnvel í námi. Það er til fyrirmyndar á Austurlandi hvernig hefur verið unnið að því að styðja og styrkja við ungt fólk. Til dæmis var þar verkefni sem var unnið fyrir nokkrum árum og hét Jaðar er hin nýja miðja. Það kemur í rauninni til mótvægis við það að þurfa ekki að leita til „miðjunnar“ eftir menningu, að skapa hana sjálfur. Þessir samningar hafa gert okkur kleift að skapa aðstöðu fyrir ungt listafólk um allt land til að sinna menningarsköpun.