143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

menningarsamningar.

[14:39]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram er komið er mikilvægt að fjárveitingar til menningarstarfs í landinu dragist ekki hlutfallslega meira saman til landshlutaverkefna en til menningarstarfsemi á landsvísu ef á annað borð þarf að skera niður. Hins vegar er mikilvægt að forsenduskipting fjár milli landshluta sem og reiknireglur sem notaðar eru séu skýrar og gagnsæjar og um þær ríki sátt og þeim sé ekki breytt með skömmum fyrirvara.

Þær forsendur sem ég tel mikilvægt að taka til skoðunar við skiptingu fjár eru m.a. íbúafjöldi, dreifing íbúa, þ.e. fjöldi byggðakjarna og samgöngur innan landshluta, aðgengi að annarri menningu sem greidd er úr sameiginlegum sjóðum, sem þýðir í rauninni vegalengd til og frá höfuðborg, fjármagn sem varið er af ríkisvaldinu til annarrar menningarstarfsemi í landshlutanum og mótframlög sveitarfélaga á svæðinu. Mikilvægt er að fram fari reglulegt árangursmat.

Þá er brýnt að skýra betur skil verkefna sem ætlað er að sækja fjármagn í menningarsamningana annars vegar og hins vegar ýmsa sjóði sem starfa á landsvísu og stofnanir sem bundnar eru á fjárlögum þannig að allir landshlutar sitji við sama borð.

Verði fjármagn til menningarstarfsemi hluti af öðrum áætlunum, svo sem sóknar- eða landshlutaáætlunum, er afskaplega mikilvægt að samband við fagráðuneytin rofni ekki svo að áfram verði skilgreint hlutfall fjármagns í samningum milli ráðuneyta og eins innan mismunandi verkefna í menningarsamningi sem gæti t.d. verið stofn rekstrar og viðburðastyrkir.

Fyrst og fremst held ég að skýr markmiðssetning til langs tíma skipti öllu máli.