143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[15:13]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir ræðuna. Hún lýsti mjög vel hvernig vinnan í nefndinni er búin að vera. Ég þakka henni sömuleiðis fyrir gott samstarf í þessu máli. Sem betur fer er loksins orðin breið sátt um þennan málaflokk. Þó að við deilum að sjálfsögðu um nokkra efnisflokka og munum líklega gera áfram er komin breið sátt um þennan mikilvæga málaflokk sem við þurfum að ná utan um.

Ég er ekki með beina spurningu til þingmannsins en mig langar að endurtaka nokkur orð sem hún sagði áðan sem lýsir ágætlega starfinu og af hverju við höfum náð að halda svona vel á þessu máli. Afraksturinn er að koma upp úr skotgrafahernaði og fjalla efnislega um málið. Ég er hjartanlega sammála um það og biðla til annarra þingmanna í öðrum nefndum, hvort sem við fjöllum um mál í nefndum eða í þingsal, að hugsa aðeins um þessi orð hennar. Úr því að við náðum góðri lendingu í jafn flóknu og erfiðu máli og þessu held ég að við getum líka náð góðri lendingu í öðrum málum. Ég held að í grunninn séum við meira sammála og nær hvert öðru, ekki bara í þessu máli heldur í mörgum öðrum.