143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[15:15]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, við erum örugglega meira sammála en hitt. Þess vegna voru það kannski í gamla andanum eðlileg viðbrögð nýs umhverfisráðherra að ætla bara að henda lögunum af því að hann var ekki alveg sáttur við allt í þeim. Sem betur fer varð sú afstaða þó ekki ofan á út af því vinnulagi sem við höfðum.

Ég ítreka aldrei nógu oft í þessari umræðu að núna skiptir mjög miklu máli að menn haldi vel á spöðunum þann tíma sem eftir er þangað til lögin taka þá gildi, þ.e. innan þess frests sem gefinn hefur verið til 1. júlí á næsta ári. Gallinn er að við erum að tefja gildistöku laga og ákvæða sem skipta verulegu máli, og ég fór yfir nokkur hér áðan, um (Gripið fram í.) enn aðra 15 mánuði ofan á það ár (Gripið fram í.) sem gildistökunni var frestað um í samkomulaginu síðasta vor. Ég brýni hæstv. ráðherra í að fara af stað og vinna áfram vel í anda þeirrar sáttar sem við í nefndinni köllum eftir þannig að nefndin fái síðan málið til umfjöllunar með haustinu eins og rætt hefur verið um og fái að skoða frumvarpsdrög áður en málin verður lagt fyrir þingið til endanlegrar afgreiðslu.