143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[15:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ákvað að taka Grágás með mér í ræðustólinn til öryggis, í þessari fallegu útgáfu sem heitir Lög Íslendinga. Af því að almannaréttur kemur nokkuð við sögu í þessu máli er kannski gott að hafa þessa merku bók hendi nær.

Ég vil fyrst og fremst byrja á að þakka umhverfis- og samgöngunefnd fyrir frammistöðuna í þessu máli. Ég tel að nefndin hafi staðið sig vel og það sé sómi að því að hún afstýrði því mikla slysi sem það hefði að mínu mati orðið að afturkalla á einu bretti nýja löggjöf um náttúruvernd, lög nr. 60/2013. Þótt lögin hefðu ekki tekið gildi hefði það samt verið mikil afturför að kippa þeim bara til baka. Niðurstaða nefndarinnar er sem sagt sú að fresta gildistökunni en láta þau bíða þess að taka gildi og þá kannski með einhverjum breytingum sem menn nýttu tímann til að ná vonandi saman um á meðan. Þar með er því slysi afstýrt. Öll sú mikla vinna sem lá að baki því að koma þeim lögum saman, bæði utan þings og innan, verður einfaldlega sett til hliðar.

Nefndarálitið er sömuleiðis gott og tekur greinargerð frumvarpsins langt fram. Við 1. umr. málsins gagnrýndi ég það, og með fullum rétti tel ég, að röksemdafærslan fyrir því að kippa lögunum einfaldlega úr sambandi var svo bágborin og fátækleg að engu tali tók. Úr þessu hefur umhverfis- og samgöngunefnd bætt mjög myndarlega með því að fara efnislega í gegnum þau álitamál sem þóttu þá standa eftir og greina þau til leiðsagnar við frekari vinnu þegar hún hefst í framhaldinu verði það niðurstaða þingsins að fallast á tillögu nefndarinnar og breyta brottfallsfrumvarpinu yfir í frestun-á-gildistöku-frumvarp. Það er niðurstaða nefndarinnar. Þetta tel ég í sjálfu sér ágætisniðurstöðu, leyni því auðvitað ekki að mér er eftirsjá í því að hin nýju lög taki ekki gildi í heild sinni og á tilsettum tíma eða þá sem allra fyrst, enda tel ég það í sjálfu sér ekkert vandamál. Þrátt fyrir ágæta og málefnalega reifun nefndarinnar á því sem ágætt sé að skoða betur hef ég hvergi rekist á neitt í lögunum sem áttu að taka gildi núna eftir nokkra daga sem ekki mætti vel koma til framkvæmda og búa við. Auðvitað eru báðar leiðir færar þegar svo er uppi að menn láti lög taka gildi og láti reyna á framkvæmd þeirra.

Þau má þá líka alltaf betrumbæta með lagfæringum eða slá því á frest um sinn og reyna að gera þau enn betur úr garði sem auðvitað má líka telja málefnalegt. Að vísu er sá galli á að talsverð vinna átti að tengjast þessari lagasetningu en hefur því miður frestast vegna óvissunnar, og vegna fjárskorts geri ég ráð fyrir. Mjög mikilvægur hluti þessa umbótastarfs í náttúruverndarlögunum sneri til dæmis að utanvegaakstri og að koma skikki á þau mál. Er nú ekki seinna vænna, satt best að segja. Með fullum rétti má segja að það sé til vansa þeim sem að þeim málum hafa staðið um langt árabil að menn hafi ekki betur og tímanlegar tekist á við þær aðstæður sem hafa smátt og smátt skapast í þeim efnum. Það er tiltölulega tilviljanakennd þróun í þeim efnum hvar vegslóðar myndast og farið er að aka um. Ég kem betur að því síðar.

Það sem er verðmætt við nefndarálitið er, eins og ég sagði, sú greining sem þar kemur fram á nokkrum mikilvægum þáttum löggjafarinnar. Niðurstaðan er þó kannski merkilegust fyrir þær sakir að þeir eru ekki mjög margir og að þar eru ekki gerðar ýkja alvarlegar athugasemdir. Það er meðal þess sem vinna nefndarinnar leiðir í ljós og er fagnaðarefni. Með öðrum orðum er það fjarri því að menn komist að þeirri niðurstöðu að frumvarpinu, eins og Alþingi fór um það höndum á sínum tíma og gerði að lögum fyrir ári, hafi í veigamiklum atriðum og fjölmörgum þáttum verið ábótavant. Það er ekki svo, samanber það sem segir í nefndarálitinu að þó að í ljós komi að einstakir þættir laga nr. 60/2013, með leyfi forseta, „séu umdeildir telja allmargir að ávinningur felist í þeirri vinnu sem lögð hefur verið í heildarendurskoðun laganna“.

Ég vík þá að almannaréttinum sem meiningin var, og er væntanlega, að styrkja nokkuð í sessi með lögunum og fyrri ræðumenn hafa komið inn á það. Ég minni á það hversu ríkur og mikilvægur sá réttur er í þessu landi og hefur eðlilega verið alveg frá því að við fórum að setja okkur lög þannig að menn gætu farið um landið og för manna væri ekki heft að ósekju ef þeir áttu lögmæt erindi til mannafunda, í viðskiptalegum tilgangi, búferlaflutningum eða hvað það var. Bæði Jónsbók gamla og Grágás sýna hversu fjölþættur þessi almannaréttur var. Nú eru menn viðkvæmir fyrir því að menn fari um einkalönd. Það var aldeilis ekki bannað á söguöld, þvert á móti var mönnum heimil í fyrsta lagi frjáls för sem slíkum, gangandi eða ríðandi um lönd annarra manna, áttu náttúrlega að hegða sér þar eins og skikkanlegir og sómakærir menn. Mönnum var heimilt að reka búfénað sinn yfir lönd annarra manna ef þeir þurftu þess með til að komast til beitarlands, í selstöður eða annað því um líkt. Mönnum var heimilt að beita nauðsynlega á slíkum ferðum og mönnum var heimilt að veiða sér til bjargar þótt á annarra manna landi væri.

Ég hef nýtt mér þennan almannarétt. Ég las mér vel til um þetta á sínum tíma og hef oft gripið til þess að vitna til þessara góðu og gildu réttarreglna. Ég hef til dæmis á nokkrum ferðum um landið þurft að ganga yfir bæði einkalönd og innan lögsögu margra sveitarfélaga og auðvitað síðan almenninga á miðhálendi. Ég hef gjarnan haft þá reglu að tilkynna landeigendum eða ráðamönnum ef ég hef vitað hverjir þeir voru, þ.e. eigendum jarða, eigendum fjallaskála eða forráðamönnum sveitarfélaga sem ég ætti leið um og kannski spurst fyrir um gistimöguleika og annað í leiðinni. Ég hef jafnan tekið fram í slíkum samskiptum að ég sé ekki að biðja leyfis, ég þurfi þess ekki. Ég þarf ekkert leyfi frá mönnum til að ganga um afréttarlönd, almenninga eða óbyggðir Íslands. Ég hef þann rétt. Ég hef veitt mér til bjargar matarlítill þegar ég hef til dæmis komið ofan af hálendinu til að drýgja forðann á leiðinni til byggða, göngu ofan af miðhálendinu og niður í Fnjóskadal. Það var ágætissilungur ofarlega í Fnjóská sem er góður til matar þegar maður er svangur. Ekki spillir fyrir að hitta þýska ferðamenn sem eiga salt.

Þannig er það og þótt ég þekki vel til bænda og landeigenda og þyki vænt um þá er ég ekki viðkvæmur fyrir því að standa á þessum forna og mikilvæga rétti í landinu. Mér finnst hann vera hluti af tilveru okkar. Þetta er líka hluti af þeirri tilfinningu að við eigum þetta land saman. Þó að hér hafi við landnámið innleiðst einkaeignarréttur á landi sem menn gátu helgað sér með tilteknum aðferðum eins og kunnugt er held ég samt að í hugum okkar Íslendinga sé mjög sterkt að við eigum þetta land saman í almennum skilningi þess orðs. Ég væri auðvitað miklu hrifnari af því fyrirkomulagi sem er handan við sundið, á Grænlandi, að enginn maður geti átt land — enda á auðvitað enginn land í sjálfu sér. Landið og náttúran á sig sjálf. Við eigum bara að vera gæslumenn og við eigum að þakka auðmjúk fyrir að fá að búa á landinu og nýta það okkur til bjargar.

Við eigum það heldur ekki í þeim skilningi að landið tilheyrir óbornum kynslóðum. Það er eins og hver önnur heimska að líta svo á að tímabundinn meintur einkaeignarréttur einhverra á landi breyti þeim staðreyndum. Það er ekki svo. Það ýtir hvorki til hliðar mikilvægi almannaréttarins og sameignarhugsuninni gagnvart landinu og ábyrgðinni auðvitað líka né rétti óborinna kynslóða. Um þetta þarf að búa vel og mér sýnist ekki af veita eins og minnt var á í fyrri ræðum þegar mammon karlinn er kominn í spilið og menn ætla að fara að selja jafnvel löndum sínum aðgang að ýmsum fallegum stöðum í landinu. Mér finnst satt best að segja alveg yfirgengilegt að það sé komið upp á dekk á Íslandi að hugsa þannig.

Varðandi varúðarregluna gildir að sjálfsögðu það sama þar, þessar meginreglur umhverfisréttarins komast með nýju lögunum, sem senn taka gildi, loksins sómasamlega inn í lög á Íslandi þótt það dragist eitthvað. Það er meira en tímabært og auðvitað eru það tímamót. Varúðarreglan er þar langmikilvægust, mengunarbóta- eða greiðslureglan og allt það.

Auðvitað er alveg ljóst að þessar grundvallarreglur hafa verið að styrkjast í sessi, bæði hér og ég tala nú ekki um í þróun umhverfisréttarins alþjóðlega. Við getum ekki látið eins og við séum ónæm fyrir því. Það er ekki orðið vansalaust hversu dauflega okkur hefur gengið að fylgja þróuninni í þessum efnum, en betra er seint en aldrei. Ég trúi því og treysti að við frekari vinnu í þessu máli standi ekkert annað til en að festa varúðarregluna í lög enda kemst nefndin sameiginlega að þeirri niðurstöðu og ég fagna því. Í nefndarálitinu er því slegið föstu að niðurstaða nefndarinnar sé að varúðarreglan skuli lögfest. Það er mjög mikilvæg yfirlýsing. Í viðbót við afgreiðslu Alþingis í fyrra á lögunum höfum við staðfest það aftur hér af meiri hluta sameinaðrar umhverfis- og samgöngunefndar þessa kjörtímabils að varúðarregluna skuli festa í lög.

Ég vil svo aðeins tala um utanvegaaksturinn. Tímans vegna get ég ekki eytt miklu púðri í hvert og eitt atriði, t.d. að fjalla um sérstaka vernd, og ég geri engar athugasemdir við þá umfjöllun sem þar er, fyrst og fremst að nefndin vill að skoðuð verði ýmis rök sem sett hafa verið fram og rökstudd um að styrkja þurfi stöðu greinarinnar og skoða samhengi hennar við ákvæði annars staðar í lögum. Um utanvegaaksturinn held ég að sé algerlega ljóst að það er orðið mjög brýnt að koma skikki á þau mál. Ég hef margoft rætt þetta á Alþingi eins og það kemur mér fyrir sjónir, að þróunin undangengin ár er mjög óheppileg og á ég þó ekki endilega við að menn séu hist og her og af og til að keyra út fyrir vegi. Það er ólögmætt og allt það.

Það sem ég tel langalvarlegast er þessi tilviljanakennda og eiginlega stjórnlausa þróun sem á köflum hefur verið í gangi á ákveðnum svæðum, sérstaklega á þurrum svæðum þar sem í raun er auðvelt að aka, ég tala nú ekki um torfærubílum eiginlega hvert af augum sem er. Það á við um býsna stór svæði á miðhálendinu og í gosbeltinu sem gengur í gegnum Ísland endilangt frá suðvestri til norðausturs, er yfirborð landsins víða það þurrt og sendið að það má eiginlega keyra hvar sem er. Inn á milli eru þá gróðurvinjar sem menn aka þá gjarnan yfir líka. Tiltölulega tilviljanakennd slóðamyndun hefur verið í gangi. Ég hef alveg séð það gerast og upplifað sjálfur í heimsóknum á svipaðar slóðir á hálendinu með nokkurra ára millibili kannski að einhver hefur tekið sig til og keyrt beint af augum á einhvern stað. Síðan kemur annar og sér að þarna er komin slóð og hann keyrir hana og svo koll af kolli og eftir smástund eru menn farnir að líta á þetta sem viðurkenndan veg. Svona á þetta ekki að gerast.

Það má segja að sumpart hafi þetta gerst líka í gegnum athafnir ýmissa manna sem hafa teygt sig inn á hálendið, að þeir sem hafi til dæmis verið í virkjanaundirbúningi og ýmsum ferðalögum eða þá hreindýraveiðimenn og ýmsir aðrir hafi bara tekið sig til og keyrt á þá staði sem þeir töldu sig þurfa að komast á. Þar með var kominn „vegur“. Auðvitað gengur þetta ekki svona. Það verður að koma skikki á að það sé flokkað upp og ákveðið hvað skuli teljast viðurkenndir vegir sem menn mega aka um og hvað ekki. Þá geta löghlýðnir borgarar landsins, ferðamenn og aðrir, og það vilja flestir vera, hegðað sér í samræmi við það.

Ég held því ekki fram að það sé almennur vilji og almenn skoðun að menn eigi að geta keyrt hvert sem er. Svo er að sjálfsögðu ekki.

Hér kemur það fram sem er í raun afar athyglisvert að eftir skoðun nefndarinnar á þessu máli og þrátt fyrir mikla umræðu hafi ekki komið fram önnur raunveruleg ráð en þau sem meiningin er að beita í lögunum, þ.e. að ganga frá einhvers konar kortagrunni eða hvað við köllum flokkun á þessum slóðum og vegum og fá botn í það hvar má keyra og hvar ekki á grundvelli slíks gagnagrunns sem fyrir liggur, enda er augljóst mál að það er eina leiðin til að ná utan um þessi viðfangsefni. Menn mega ekki blanda þessari almennu stöðu saman við það að svo getur orðið ágreiningur um einstakar afmarkaðar akstursleiðir. Ég veit til dæmis vel að þeir menn eru til í þessu landi sem vilja geta keyrt í gegnum Vonarskarð. Ég er því algerlega ósammála. Ég tel fráleitt að ætla að fara að leyfa umferð í gegnum það viðkvæma og sérstæða svæði. Það er engin ástæða til þess þegar menn geta keyrt upp í skarðið beggja vegna frá og þar mundu vegir enda og síðan væru gönguleiðir þar á milli.

Að vísu mundu menn ekki keyra mikið um Vonarskarð, herra forseti, ef tillögur hvítbókarinnar frá 1994 um vatnsaflsvirkjanir yrðu að veruleika. Það er kannski fróðlegt fyrir einhverja að kíkja á kortin þar og sjá að á þeim er Vonarskarð fullt af vatni. Það er ekki lengra síðan en 20 ár að menn í iðnaðarráðuneytinu gáfu út í bók á Íslandi hugmyndir um að stífla Vonarskarð bæði að sunnan og norðan, vera þar með risastórt miðlunarlón, sökkva öllum miðhluta skarðsins og töldu það sérstaklega til kosta við þessa miðlun að hægt væri að veita úr henni vatn bæði norður og suður. Það væri sem sagt hægt að senda gusu bæði í Skjálfandafljót og Köldukvísl. Þá hefði ekki orðið vegur um botn Vonarskarðs, enda á þar enginn vegur að vera. Auðvitað geta menn haft önnur sjónarmið og aðrar skoðanir en ég og hafa fullan rétt til þess í þessum efnum og þá takast menn á um þær og fá niðurstöðu í málið. Er einn af þeim vegum sem menn vilja leyfa og hafa opinn til aksturs á miðhálendi Íslands vegur í gegnum Vonarskarð? Já eða nei?

Um framandi lífverur er sömuleiðis fjallað hér og það er mikilvægt að ganga skýrt frá því hvað við leyfum og þá með hvaða reglum og takmörkunum og hvað ekki í sambandi við innflutning ágengra tegunda eða framandi lífvera í náttúru okkar. Það þarf ekkert að rökstyðja mikilvægi þess. Það hljóta allir að viðurkenna og sjá að á Íslandi sem og víða annars staðar þar sem sérstakt lífríki er hafa menn farið alveg hroðalega út úr því að vera með glannaskap í þeim efnum að flytja framandi tegundir inn í öðruvísi umhverfisaðstæður þar sem þær geta tekið til við að hegða sér allt öðruvísi en í heimalandinu. Á Nýja-Sjálandi er til dæmis einhver mesta plágan í nýsjálenskum landbúnaði nokkrar ágengar tegundir frá Norður-Evrópu, t.d. Skotlandi, sem voru fluttar inn í hið hlýja og raka loftslag Nýja-Sjálands. Þær slepptu þar fram af sér beislinu og vaða um allt. Snyrtilegir limgerðisrunnar í svölu Skotlandi verða að algeru illgresi í beitarhögum Nýja-Sjálands. Lúpínuna hjá okkur þekkjum við o.s.frv. Þar er sömuleiðis þáttur (Forseti hringir.) sem þarf að taka mjög vel á.

Herra forseti. Ég skal ljúka máli mínu. Ég endurtek þakkir mínar til umhverfis- og samgöngunefndar og vona að þessu máli haldi áfram að vegna vel í þessum anda sem nefndinni tókst að mynda.