143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[16:01]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég held að það sé vel þess virði að hugleiða aðeins meira náttúrustofur og náttúruverndarnefndirnar. Það hefur verið í svipuðum farvegi í töluverðan tíma, held ég, en kannski vantar skilgreinda verkferla og spurning er hvort þingmaðurinn þekkir það betur en fram kom í fyrra svari.

Þá langar mig að velta fyrir mér áfram framhaldi seinni spurningarinnar frá því áðan: Hvernig er hægt að byggja upp traust á milli þeirra sem búa í sem mestu sambýli við náttúruna og stjórnsýslunnar á þessu sviði? Höfum við hugsanlega stjórnsýslu nær vettvangi sem getur verið í daglegu sambandi við þá sem eru í mestu sambýli við náttúruna dags daglega?