143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[16:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi seinni spurninguna held ég að þetta snúist nefnilega um hugtak sem hv. þingmaður nefndi og það er traust. Það er þarf að eyða þeirri tilfinningu eða skoðun sem á köflum var býsna útbreidd, og er sjálfsagt enn, að náttúruvernd, þjóðgarðar, friðlýsingar séu afurð umhverfisverndarsinna eða sérfræðinga á skrifstofum suður í Reykjavík sem verið er að troða upp á fólk út um allt land. Við skulum bara tala mannamál í þeim efnum. Sumir hafa upplifað þetta svona og talað eins og þetta séu hömlur á athafnir og réttindi manna úti á svæðunum. Þannig á það auðvitað ekki að vera. Þess vegna þarf að sjálfsögðu að taka tillit til sjónarmiða, aðstæðna og hagsmuna heimamanna. Í það fór mikill tími hjá Vatnajökulsþjóðgarðsnefndinni, svo ég vitni aftur til hennar, og niðurstaðan varð svæðisráð sem hafa hlutverk og síðan samræming á toppnum. (Forseti hringir.) Ég held að að þetta muni alltaf þurfa að verða einhvern veginn þannig, að sætta þessi sjónarmið svoleiðis.