143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[16:03]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að almannarétturinn er afar mikilvægur. Hann hefur fylgt okkur alla tíð frá landnámi og hann er greipaður inn í vitund okkar. Auðvitað mundi ég vilja velta fyrir mér hvort ástæða væri til að hnykkja eitthvað á honum, hugsanlega í stjórnarskrá.

Landið er okkar allra, þá er ég ekki að tala um að það sé sameign í eignarréttarlegum skilningi en það er okkar allra. Ég sé það ekki stangast neitt á við einkaeignarrétt einstakra manna á landi sem slíku, ég hef ekki áhyggjur af því. En af því að ég hef sömu áhyggjur og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon á gjaldtökunni, sem nú er byrjað á, þá vildi ég gjarnan spyrja hann hvort hann sé ekki sammála mér um að forsenda sé fyrir því á ákveðnum stöðum að menn geti nýtt almannaréttinn, að þar sé aðstaða og uppbygging og hvort slugs okkar stjórnmálamannanna hafi kannski leitt til þess að umrædd gjaldtaka er orðin að veruleika. Og hvort við þurfum þá ekki að bregðast við því mjög skjótt ef ekki á að þróast á verri veg í þessum efnum.