143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[16:10]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir ágæta ræðu og sérstaklega hlý orð í garð umhverfis- og samgöngunefndar. Það er kannski eitt sem ég vildi gera athugasemdir við, það voru orð þingmannsins um að þau álitaefni sem við drögum hér fram í nefndaráliti, sem eru vissulega færri en menn töldu í upphafi, séu ef til vill ekki jafn stór í sniðum og menn höfðu talið. Ég er þar ósammála hv. þingmanni. Ég vil til að mynda benda á umfjöllun um varúðarregluna og vísa í ræðu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur þar sem hún benti á að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd væri núna að velta því fyrir sér hvort þessi regla ætti kannski frekar heima í stjórnarskrá en annars staðar.

Ég vona að ég hafi ekki misskilið hv. þingmann, en ef þau mál sem við ræðum hér, almannarétturinn, varúðarreglan og fleiri mál, eru það risastór í sniðum á ekki að saka þótt menn gefi sér betri tíma til að fara yfir þau.

En ég verð nú að þakka hv. þingmanni fyrir lýsinguna þegar hann fjallaði um almannaréttinn og þurfti að draga fram lífið eftir að hafa verið uppi á hálendinu tötrum klæddur með hníf í munni. Þá hafði hann veitt silung með berum höndum en átti hvorki salt né pipar. Til allrar guðs blessunar bar þá að þýskan ferðamann sem bjargaði honum. Ég er ansi hræddur um að sú lýsing verði mér ofarlega í huga þegar ég geng til náða næstu kvöld.