143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[16:20]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um brottfall laga um náttúruvernd og breytingartillögu hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Hún lýtur í raun og veru að algjörri kúvendingu á því máli sem hæstv. ráðherra mælti fyrir snemma þings sem hefur verið rætt sem eitt af snautlegri frumvörpum þingsögunnar og snerist um að lögin nr. 60/2013 féllu einfaldlega brott.

Eins og komið hefur fram í umræðunni var það töluverð áskorun fyrir hv. umhverfis- og samgöngunefnd að taka frumvarpið til umfjöllunar og strax í 1. umr. kom fram í máli hv. formanns nefndarinnar vilji til þess að málið fengi ítarlega umfjöllun og umræðu í nefndinni. Eins og vera ber hafði maður á því allnokkra fyrirvara að svo yrði en það varð þeim mun meira fagnaðarefni að nefndinni tókst undir forustu hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar að leiða málið farsællega til lykta svo að í stað þess að fella lögin úr gildi er hér lagt til að fresta gildistökunni enn um sinn. Þá er gert ráð að lögin öðlist gildi 1. júlí 2015 og þar með gefst tími til þess frá og með gildistöku þessara laga með breytingum að ná efnislegri niðurstöðu í umfangsmikil og metnaðarfull ný náttúruverndarlög.

Nú leyni ég því ekkert að þótt ég vilji þakka hv. nefnd afar góða vinnu við erfiðar kringumstæður, bæði efnislega og pólitískt, að ég hefði auðvitað helst viljað sjá lögin einfaldlega ganga í gildi. Ég tel raunar að það hefði verið mikilvægt og gott skref fyrir náttúruvernd á Íslandi, en um leið er sú staða sem við erum að ræða akkúrat hér og nú miklum mun betri en sú sem hæstv. ráðherra lagði til þegar hann lagði það til í fullri alvöru í þinginu að stúta fjögurra ára vinnu, ekki aðeins að leggja vinnuna til hliðar og frekari skoðunar heldur einfaldlega að kasta henni. Það var tillaga ráðherra og sú tillaga er að baki og hér stendur nefndin fyrir annarri og betri nálgun.

Hún er ekki önnur og betri aðeins vegna þess hvenær og hver það var sem mælti fyrir málinu á sínum tíma eða hvaða ríkisstjórn var við lýði o.s.frv. heldur einfaldlega vegna þess að það er gríðarlega dýrmætt að horfa til svo yfirgripsmikillar vinnu, bera virðingu fyrir henni og byggja á henni, því að hún var ekki plokkuð úr einu horni pólitíska litrófsins heldur var þar um að ræða gríðarlega mikla þekkingu á náttúruvísindum, á náttúruverndarlöggjöf og hvítbókarhópurinn var þannig saman settur að þar voru fyrst og fremst sérfræðingar í tveimur málaflokkum, annars vegar í náttúruvísindum og hins vegar í stjórnsýslu. Af hverju var það? Það var vegna þess að við þurftum sérstaklega á því að halda að farið yrði yfir með skýrum og afgerandi hætti hver staða löggjafar náttúruverndar á Íslandi væri, hvar væri helst pottur brotinn, hvar væri mikilvægast að færa löggjöfina til betri vegar og hvernig mætti koma nýju lagaumhverfi í kring þannig að framkvæmdin yrði skýrari, stofnanir hefðu skýrara umboð og kannski það sem mestu máli skiptir þegar öllu var á botninn hvolft, að náttúran hefði styrkari sess eða traustari sess í löggjöfinni og hún fengi á skýran og afgerandi hátt að njóta vafans.

Þegar hvítbókarhópurinn var settur af stað til að byrja með var það þannig að erindisbréfið sem hópurinn fékk fyrst og var undirritað af þeirri sem hér stendur var með mjög hefðbundið til að byrja með þar sem hlutverkið sem hópurinn fékk var að endurskoða lög um íslenska náttúruvernd, endurskoða íslensk náttúruverndarlög. Það er kannski meira í þeim anda sem við höfum séð lagaendurskoðun yfirleitt, þ.e. að menn horfa einfaldlega til þeirra laga sem fyrir eru og setja svo hóp í það að skoða þau lög og gera tillögu að nýju frumvarpi og gera það þannig að kallað er eftir sjónarmiðum og með fundarhöldum og samræðu o.s.frv. en síðan er vinnan að jafnaði frekar þröng.

Hópurinn lagði síðan sjálfur til það verklag sem varð ofan á og lagði það til sem viðbragð við erindisbréfinu að vinnan yrði höfð nokkuð breiðari. Í staðinn fyrir að hafa hana einfaldlega þannig að einungis væri verið að horfa á lögin frá 1999 og vinna með þau og breyta þeim vildi nefndin fara þá leið að freista þess að ná utan um lagaumhverfi náttúruverndar á Íslandi á breiðari hátt, utan um sviðið sem heild, óháð því hvaða lagabókstafur væri undir nákvæmlega í hverju tilviki. Afurðin frá þeirri vinnu er hvítbókin og er í raun og veru að mörgu leyti skyldari aðferðafræði sem oftar en ekki er beitt í löndunum í kringum okkur sem er þessi hvítbókarnálgun sem útheimtir bæði lengri tíma og dýpri vinnu og dýpri nálgun. Ég held að það sé verklag sem við ættum að tileinka okkur í ríkari mæli, en um leið skynjar maður að samfélagið er óvant þeirri nálgun því að þegar hvítbókin kom til kynningar og til umræðu úti í samfélaginu voru viðbrögðin að sumu leyti þannig að menn brugðust við rétt eins og þeir væru að bregðast við frumvarpi, eins og þeir væru að bregðast við einhvers konar lokaafurð en ekki grundvelli endurskoðunar. Samráðsferlið, sem sannarlega var gagnrýnt í aðdraganda náttúrverndarfrumvarpsins, var því bæði lengra, viðameira og opnara en að jafnaði er.

Fyrir vikið urðu kröftug skoðanaskipti alla leiðina. Kannski er það sérstakt fyrir Ísland að sumu leyti að við erum í svo sterku og nánu samspili við náttúruna að skoðanir á náttúruverndarlögum og lagaumhverfi náttúruverndar eru mjög sterkar. Það er gríðarlegur fjöldi af bæði hagsmunahópum, náttúruverndarhreyfingum, grasrótarsamtökum o.s.frv. sem hafa skoðun á því hvernig náttúruverndarlöggjöf á að líta út. Auk þess er auðvitað eðlilegt að í samfélagi sem byggir efnahag sinn í svo ríkum mæli á auðlindum komi upp núningur eða ágreiningur að því er varðar náttúruverndarlöggjöfina vegna þess að það varðar auðvitað hornstein umgengni við náttúruna og það hversu langt við viljum ganga í sjálfbærnissjónarmiðum. Þetta er umræða sem að sumu leyti stendur traustum fótum í þjóðarsálinni en kannski ekki eins traustum fótum í pólitískri umræðu, þ.e. sú nálgun að náttúran, hvort sem er lífríkið eða landið eða hvað það er, búi við tilteknar takmarkanir, við getum ekki gengið lengra en náttúran getur endurnýjað sig jafnharðan. Náttúruverndarlögin fjalla öðrum þræði um það hvernig náttúran getur varið sig jafnharðan og er í raun og veru viðleitni löggjafans til að draga varnarmúr utan um náttúruna þar sem ágangurinn gæti orðið það mikill að hann gæti skaðað hagsmuni komandi kynslóða og náttúrunnar sjálfrar, sem oftar en ekki fer saman.

Staðan sem við sjáum hér og sem við blasir að afgreiddu þessu frumvarpi með breytingartillögu hv. nefndar er með þeim hætti að segja má að verkefnið sé komið í vinnufarveg, verkefnið er komið í vinnufarveg að nýju. Ég hef sannast sagna mjög miklar væntingar til þess að sú vinna verði farsæl en um leið er ég líka mjög meðvituð um að hún verður ekki auðveld. Farsæl, segi ég, vegna þess að það er ekki auðvelt að byggja sáttagrunn utan um ágreining og það er í raun og veru sá veruleiki sem við horfumst í augu við. Við töluðum stundum um sátt þegar við vorum að tala um rammaáætlun og fleiri ágreiningsmál, en um leið og við erum sammála um að byggt sé á ákveðnum heilindum og ákveðnu trausti í vinnunni og verklaginu er auðveldara að takast á um efnislegan ágreining en þegar grunnurinn er tortryggni og þannig að heilindi séu dregin í efa.

Ég hef orðið þess áskynja í orðum nefndarmanna í hv. umhverfis- og samgöngunefnd að það er raunverulegur sáttagrunnur hér fyrir hendi, held ég, og um leið er afar mikilvægt, og ég kom að því í andsvari við hv. framsögumann málsins og formann nefndarinnar, að nefndin sleppi ekki hendi sinni af vinnunni núna í framhaldinu.

Ég geri mér grein fyrir því að sýnin er sú, og það kom fram í andsvari hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, að ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála komi að næstu skrefum á einhvern hátt og með því að vinna sig í gegnum efnisþætti málsins á grundvelli ágætisnefndarálits þar sem þeir þættir eru rammaðir inn. Um leið held ég að gríðarlega mikilvægt sé að nefndin sé í þéttu samráði og sambandi við ráðuneytið þannig að menn missi aldrei sjónar á þeim sáttagrunni, af því að það er óendanlega mikilvægt að halda þeim þræði til haga. Það hefur komið fram og kom fram fyrr í umræðunni að ekki hefur aðeins dregið úr tortryggninni er varðar þetta verklag heldur ekki síður að því er varðar efnisþætti málsins. Mér hefur fundist það mjög ánægjulegt vegna þess að það hefur verið ríkjandi ákveðin tortryggni. Ég vil þá sérstaklega nefna varúðarregluna þar sem menn hafa kannski verið haldnir þeim hugmyndum eða þeim misskilningi, vil ég segja, að varúðarreglan sé til þess fallin að koma í veg fyrir nánast allar framfarir eða verklegar framkvæmdir eða hvað eina, á meðan staðreyndin er sú að varúðarreglan hefur verið leidd í lög í löndunum í kringum okkur án þess að sú hafi orðið raunin. Þarna höfum við því orðið þess áskynja mjög sterkt að það er ríkjandi tortryggni sem tekist hefur að vinna bug á að mörgu leyti í umræðunum í nefndinni.

Það náttúrlega þannig, og það er mikilvægur þáttur í þessu öllu saman, að formaður nefndarinnar, sem er þingmaður Framsóknarflokksins — Framsóknarflokkurinn á sér raunar nokkra sögu í því að vilja leiða meginreglur umhverfisréttarins í lög. Það gerði þáverandi hæstv. umhverfisráðherra Jónína Bjartmarz með því að leggja fram sérstakt frumvarp sem fjallaði einungis um meginreglur umhverfisréttarins en það frumvarp náði ekki fram að ganga. Hér er farin sú leið að setja varúaðarregluna í náttúruverndarlögin sem slík. Menn hafa því verið að jafnaði, eins og ég skil það, sammála um að þetta snúist um að yfirvinna þessi álitamál, þ.e. að skrifa sig í gegnum það að það ríki traust í því hvernig varúðarreglunni er komið til framkvæmda.

Hér hefur aðeins verið rætt í umræðunni í dag um almannarétt og sú umræða er mjög aðkallandi einmitt í þeim veruleika sem við blasir í gjaldtökumálum, hvort sem er við Geysi eða hvar annars staðar, eða umræðan um náttúrupassa, hugmyndir um gjaldtöku, hvort sem er á einum stað, á hverjum stað fyrir sig eða einhvers konar aðgöngumiði að náttúru Íslands, því að með slíkum tilþrifum værum við að skyggja á aldagamlan rétt landsmanna til þess að fara um eigið land. Ég held að skilningurinn á almannaréttinum sé einfaldlega líka orðinn sterkari. Ég hef orðið þess áskynja að fólk ræðir almannaréttinn af sífellt meiri hita, enda er þarna um að ræða rétt sem er svo djúpstæður að hann er ekki aðeins inni í okkur hverju og einu heldur líka í sögu þjóðarinnar.

Þarna er um að ræða einhver álitamál sem nefndin hefur listað ágætlega upp í nefndaráliti sínu þar sem ekki eru allir hagsmunaaðilar á einu máli en nefndin telur að þurfi að taka til sérstakrar skoðunar.

Ákvæðið um sérstaka vernd hefur verið afar veikt í núgildandi náttúruverndarlögum frá 1999 og meira að segja kom fram í greinargerð sem VSO ráðgjöf tók saman með aðstoð rannsóknarsjóðs Vegagerðarinnar í megindráttum að greinin hafi lítil áhrif. Í raun og veru sé greinin um sérstaka vernd mjög veik, eins og við höfum séð þar sem gengið er inn í gervigíga og hraun o.s.frv. án þess að nokkur fái rönd við reist, þótt mjög auðvelt sé að vekja þá umræðu í samfélaginu og í fjölmiðlum að við svo búið megi ekki standa, ekki sé gott að við búum við þá löggjöf að í raun og veru sé ekki hægt að reisa neinar varnir gagnvart aðgerðum af því tagi. Í 57. gr. í lögum nr. 60/2013 er þess freistað að styrkja þennan þátt umtalsvert. Þarna nefnir nefndin þann veruleika að það hafi verið gagnrýnd tiltekin skilyrði fyrir röskun sem gæti hugsanlega verið íþyngjandi o.s.frv. og á eftir að leiða til lykta það sem kannski verður mestur ágreiningur um. Eftir því sem ég hugsa þetta meira kemst ég frekar að þeirri niðurstöðu að þarna sé mesta áskorunin, ef svo má segja, að ná að skrifa almennilegan lagatexta utan um sérstaka vernd þannig að það sé í raun og veru eitthvert tak í því fyrir íslenska náttúru.

Virðulegur forseti. Ég hef nú farið yfir í meginatriðum það sem mér finnst mestu máli skipta. Ég vil árétta þá afstöðu mína að afar mikilvægt er að þeim þræði sem nefndinni hefur lánast að spinna sé haldið áfram, þeim þræði sem snýst um samstarfsvilja og traust. Þverpólitísk samvinna og nálgun í þessu máli er óendanlega mikilvæg vegna þess að náttúruverndarlög eru lög sem þurfa að lifa af kosningar og kjörtímabil o.s.frv. Ég vænti þess því að vinnan verði farsæl til framtíðar meðan ég hef enga ástæðu til þess að ætla annað, en um leið er ljóst af nefndaráliti nefndarinnar að þetta er ekkert smáræðisverkefni sem fram undan er. Hér eru stór álitamál og stór ágreiningsmál, en ég hef miklar væntingar til þess að umhverfis- og samgöngunefnd komi áfram að þessu verkefni á farsælan hátt.