143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[16:44]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður rifjaði upp hina nýju löggjöf. Hv. þingmaður var umhverfisráðherra og hefur þar með reynslu af því að vinna með lögin sem eru í gildi í dag. Eitt af því sem lögin áttu að gera sem taka áttu gildi núna 1. apríl og við erum að fresta núna, var að koma með nýja nálgun á svæði og náttúrufyrirbæri, ef svo má að orði komast; í staðinn fyrir menn afmarki eða setji hring um eitthvert svæði og kalli það þjóðgarð og geri síðan hálfgerðan sýningarglugga inn í hann, fara þeir að umgangast náttúruna með öðrum hætti. Þarna er búið til tæki og verkfæri fyrir umhverfisráðherra og stjórnvöld til þess að fara frekar í að draga mörkin utan um ákveðin vistkerfi og horfa meira á náttúruna sem lifandi fyrirbæri og eins sem landslagsheild.

Mig langar aðeins að spyrja fyrrverandi hæstv. ráðherra hverju það hefði breytt fyrir hana í störfum hennar að hafa þess konar ákvæði inni í lögum frekar en þau sem við búum við í dag. Hefði það skipt verulega miklu máli? Hvaða áhrif hefði það getað haft á starf hennar þegar hún var í umhverfisráðuneytinu? Þetta snýst líka um hvernig þróunin varðandi umhverfismálin verður og sýn okkar á náttúruna. Við höfum kannski verið dálítið gjörn á að ætla bara að setja glerlok yfir ákveðin svæði og þar sem menn geta horft inn og kannski gengið aðeins um og notið náttúrunnar þannig. Þá hafa önnur svæði kannski orðið út undan af því að menn hafa sett svo mikla vinnu og mikið „effort“ í þessi einu afmörkuðu svæði. Mig langaði að spyrja hv. þingmann að þessu.