143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[17:21]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem tóku þátt í þessum umræðum fyrir mjög ánægjulegan dag á Alþingi. Ég held að öllum þeim sem finnst gaman að rökræða og skiptast á skoðunum á málefnalegan hátt finnist gaman að taka þátt í svona umræðum, og ég vil þakka síðasta ræðumanni og öðrum fyrir hlý orð í garð nefndarinnar. Nefndin er vel skipuð og þar er fólk sem þorir að standa á sínu og hefur ákveðnar skoðanir en líka kjark til að gefa aðeins eftir og leggja sig fram um að ná sátt, og ég held að það hafi gerst í þessu máli.

Ég vil samt aðeins gera það að umtalsefni að mér finnst svolítið eins og menn telji að svona sátt og umræða heyri til undantekninga. Ég held að það sé umhugsunarefni fyrir okkur á Alþingi vegna þess að mér skilst að þjóðþing Norðurlandanna, þau þing sem við berum okkur einna helst saman við, þar sé umræðan oftar en ekki svona. Ég held til að mynda að mjög gott hafi verið að nefndarmenn settust niður og ákváðu hversu langan tíma umræðan mundi taka, án þess þó að ræðutíminn yrði skertur á nokkurn hátt. Ég held að allir hafi fengið að segja sína skoðun en það lá þó fyrir að umræðan mundi klárast fyrir kvöldmat, eins og mér sýnist að muni gerast.

Við erum að fjalla um lög sem hafa átt sér töluverðan aðdraganda og eru byggð á grunni annarra laga, í fyrsta lagi á lögunum frá 1971, sem var svo breytt með lögunum frá 1999. Eins og kom fram áðan var ákveðið að skipa sérstaka nefnd sem færi yfir endurskoðun á lögunum frá 1999. Sú nefnd taldi hins vegar ráðlegt að víkka starfssvið nefndarinnar og leggjast í heildarendurskoðun á þeim lagagrunni sem lög um náttúruvernd verða að byggjast á. Það út af fyrir sig var jákvætt að mínu mati.

Hins vegar verður að líta til þess að ýmsar athugasemdir komu fram við þá málsmeðferð vegna þess að einhverjum hagsmunaaðilum fannst ekki að sjónarmið þeirra hefðu fengið að njóta sín og þar með gerðist kannski það sem hefur skekkt alla þá umræðu sem þarf að vera um náttúruvernd á Íslandi, tortryggni myndaðist. Það er tortryggni í garð vinnunnar, fyrirætlana og ásetnings þeirra sem stóðu að gerð laganna.

Kannski má líka segja að svipuð tortryggni úr öndverðri átt hafi komið fram þegar ráðherra ákvað að draga lögin til baka og margir urðu hræddir um að kasta ætti allri þeirri ágætu vinnu sem hafði verið unnin á undan fyrir samþykkt laganna vorið 2013. En það stóð ekki til eftir því sem ég fæ best vitað. Hins vegar töldu menn að það mörg álitaefni væru í þessu og flókið samspil einstakra ákvæða að rétt væri kannski að gera það með þeim hætti. En eins og ég kom inn á áðan held ég að það hefði nú að öllum líkindum sett málið upp í loft og skapað enn meiri tortryggni. Þess vegna taldi ég að rétt væri að við mundum fá einhver komment eða bara vilja, getu og nennu til þess að fjalla um málið. Við fengum fjölmarga aðila á fund nefndarinnar og gáfum okkur góðan tíma, sem á nú reyndar að vera meginregla á Alþingi frekar en hitt.

Ég vil sérstaklega taka fram að við fengum á fund nefndarinnar þann mann í umhverfisnefnd, fyrrverandi þingmann, Mörð Árnason, sem fór með málið á sínum tíma. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá hann á fund minn til að ræða við hann persónulega um hvernig hefði verið staðið að allri þeirri vinnu sem þá fór fram í umhverfisnefnd. Við áttum ágætisspjall og gáfum okkur ágætan tíma til að fara yfir þetta í rólegheitum. Það lá fyrir að alltaf yrði erfitt að samþykkja grundvallarlög eins og náttúruverndarlögin í aðdraganda kosninga. Þingmenn eru út og suður og margt í spilunum sem gerir málið flóknara og erfiðara. En ég veit að fyrrverandi hv. þingmaður lagði sig allan fram um að reyna að lenda þessu í sem víðtækastri sátt, og ég vil sérstaklega geta þess.

Ég fór efnislega yfir nefndarálitið og þau álitaefni sem enn standa út af borðinu í ræðu sem ég flutti fyrir helgi. Ég ætla því ekki að fara neitt ítarlega í það. Ég vil þó geta þess og þakka hæstv. umhverfisráðherra Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir aðkomu hans að sáttinni í málinu. Hann var reiðubúinn til að fallast á fyrirkomulag vinnu innan ráðuneytisins og í fullu samræmi við nefndina, sem ég tel vera virðingarvert. Hann kom einnig með tillögu þegar hann sá í hvað stefndi um hversu langan tíma sú vinna gæti staðið.

Ég held að óþarfi sé að fara efnislega yfir ýmis ummæli sem hafa komið fram frá ræðumönnum, sitt sýnist hverjum um þessi stóru álitamál. Ég vil þó aðeins ræða tvö þeirra sérstaklega og annað þeirra snýr að varúðarreglunni. Ég nefndi í andsvari að hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hefði nefnt að verið væri að vinna að þessum málum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, mér misheyrðist, hún á sæti í stjórnarskrárnefnd sem í sitja bæði þingmenn og aðilar utan nefndarinnar, að til tals hefði komið að setja varúðarregluna í stjórnarskrá. Ég fagna því sérstaklega að verið sé að ræða það mál þar. Við ræddum það einmitt á fundi nefndarinnar hvort nefndin sem slík ætti að beina því til stjórnarskrárnefndar að taka málið upp til umræðu, fara yfir það hvernig Norðmenn hafa haldið á þeim málum, hvernig framkvæmd laganna hefur verið, þ.e. stjórnarskrárákvæðisins, dómaframkvæmd. Það er löng og mikil umræða og ég veit að hún mun fara fram innan stjórnarskrárnefndar.

Það er líka ágætt að benda á að við fengum sérfræðing frá Háskóla Íslands í umhverfisrétti sem benti á að fara yrði betur yfir þá reglu, þessa mikilvægu reglu, kanna til hlítar gildissvið hennar, samspil við aðrar réttarreglur, lagaákvæði annarra laga þannig að enginn mundi velkjast í vafa um hver vilji löggjafans væri í þeim efnum. Það væri óráðlegt, eins og ég skildi hana, að láta dómstóla, væntanlega, um að móta regluna í framkvæmd, eins og gerist þegar lög og lagaákvæði eru óskýr.

Það var eilítið fjallað um almannaréttinn, hinn mikilsverða rétt sem á rætur sínar að rekja í Grágás og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vitnaði til og var með bókina með sér. Ekki er sérstaklega langt á milli manna í þeim efnum þó að rétturinn hafi vissulega verið rýmkaður aðeins frá því sem var í lögunum frá 1999. En þó að ekki sé langt á milli manna getur þetta skipt verulegu máli í praxís og athugasemdir komu frá Bændasamtökunum og aðilum í ferðaþjónustu og öðrum sem ég tel að þurfi að fara mjög vel yfir og skoða.

Mér finnst ágætt að nefna að í gegnum tíðina hefur þessi réttur, almannaréttur um umgengni á jörðum í einkaeigu, verið nánast óumdeildur og framkvæmdin, hjá bændum sérstaklega, hefur verið til fyrirmyndar. Þeir hafa almennt séð ekki verið að fetta mikið fingur út í það þó að einhver gangi um óræktað land, hvort sem það er girt eða ógirt. En ég held að það sé nú einfaldlega hinn nýi veruleiki, veruleikinn sem blasir við, að landeigendur annars staðar, sem eru kannski ekki endilega bændur, hafa verið að loka jörðum og aðgangi að þeim í ríkari mæli en hefur viðgengist í gegnum tíðina.

Ég hef fengið fyrirspurnir frá skógræktarmönnum sem hafa áhyggjur af framkvæmd og gildissviði laganna, þ.e. að lögin héldu gildi sínu. Þetta er einn af þeim þáttum sem við munum að sjálfsögðu skoða í vinnunni sem er fram undan. Ég vil þó segja að þó að skógarbændur þurfi á einn eða annan hátt að hafa rúman rétt til að byggja upp sína skóga þá verðum við, og ég tel að allir séu sammála um það, að gæta þess að hingað komi ekki framandi tegundir sem geta valdið einhvers konar tjóni í framtíðinni. Þess vegna tel ég að fara þurfi vel yfir þau atriði, að sjálfsögðu í sátt og samlyndi með hagsmunaaðilum, þannig að ekki fari á milli mála hver réttur manna er til uppbyggingar skóga.

Að lokum vil ég ítreka þakkir mínar til nefndarmanna. Ég tel enga sérstaka ástæðu til að kalla málið til nefndar á milli 2. og 3. umr., atkvæðagreiðsla um málið fer fram á morgun. Ég vil taka fram að fulltrúar úr öllum flokkum standa að þessari sátt, fulltrúar úr öllum flokkum hafa komið til mín og lýst yfir velþóknun á því í hvaða farveg málið er komið, það er enginn undanskilinn, hvar sem hann stendur á litrófi stjórnmálanna, og það er ágætt. Það er akkúrat þar sem við, sem kennum okkur við samvinnu, viljum. Við viljum gera okkar allra besta til að ná sátt í erfiðum málum, láta á það reyna hvort sá vilji sé ekki fyrir hendi og hvort ekki sé í raun styttra á milli manna þegar lagt er af stað í upphafi.

Ég vonast til að vinnan verði ánægjuleg og þægileg og að við munum halda áfram uppbyggilegum og efnisríkum umræðum um náttúruvernd.