143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

vátryggingastarfsemi og miðlun vátrygginga.

168. mál
[18:06]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vátryggingastarfsemi og lögum um miðlun vátrygginga, þ.e. markaðssetningu, stjórnarhætti og eftirlit.

Nefndin ákvað að taka frumvarpið til frekari umfjöllunar eftir að því hafði verið vísað til nefndarinnar eftir 2. umr. og fékk á sinn fund fulltrúa frá Samtökum fjármálafyrirtækja, fulltrúa frá tryggingafélagi, frá Fjármálaeftirlitinu og síðast en ekki síst fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Nefndinni bárust umsagnir frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Fjármálaeftirlitinu.

Fram komu athugasemdir við þá breytingu í 2. efnismálsgrein b-liðar 16. gr. frumvarpsins sem felur í sér að meiri hluti stjórnar skuli ávallt vera óháður félögum innan sömu samstæðu, þar á meðal í líftryggingafélögum sem rekin eru sem dótturfélög skaðatryggingafélaga. Nefndin fór yfir málið með helstu hagsmunaaðilum. Bent hefur verið á að oft fari hagsmunir skaðatryggingafélags og líftryggingafélags saman og að ákveðið hagræði geti skapast við að samnýta starfsmenn og stjórnarmenn. Í því samhengi vekur nefndin athygli á því að nauðsynlegt er að taka tillit til þess að eðlismunur er á rekstri skaða- og líftryggingafélaga þegar kemur að fjárfestingarstefnu og áhættustýringu sem er þýðingarmikið á jafn afmörkuðum markaði og við búum við hér á landi. Auk þess má draga ályktunarbærni stjórnar í efa þegar kemur að viðskiptum milli félaganna þegar sama stjórn situr beggja vegna borðs.

Mat nefndarinnar er að ekki hafi komið fram ný sjónarmið á þessu stigi málsins sem réttlæti breytingar á umræddri grein. Nefndin telur vandkvæðum bundið að tryggja virkt stjórnendaeftirlit og takmarka hagsmunaárekstra með núverandi fyrirkomulagi. Áréttar nefndin mikilvægi þess að leitast sé við að koma í veg fyrir hættu á hagsmunaárekstrum sem krossstjórnarseta í tryggingafélögum getur skapað og tryggja gagnsæi og trúverðugleika gagnvart markaðnum og vátryggingartökum.

Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram hafa komið að skynsamlegt sé að miða við sama fjölda varamanna í stjórn vátryggingafélags og fjármálafyrirtækja sem kveðið er á um í 2. mgr. 51. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, þ.e. að kjósa skuli minnst tvo varamenn. Með slíkri ráðstöfun er komið til móts við þau sjónarmið að erfitt sé að skipa jafn marga varamenn og aðalmenn vegna aukinna krafna um hæfi stjórnarmanna í fjármálafyrirtækjum auk þess sem nútímafjarskiptatækni er þess eðlis að auðvelt er að láta stjórnarfundi fara fram án þess að allir aðilar séu saman komnir á einum stað og því sjaldgæft í framkvæmd að varamenn taki sæti.

Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

„Á undan a-lið 16. gr. komi nýr stafliður, svohljóðandi: 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Varamenn í stjórn vátryggingafélags skulu vera tveir hið minnsta.“

Undir þetta nefndarálit rita þann 3. mars sl. Frosti Sigurjónsson formaður, Vilhjálmur Bjarnason framsögumaður, Líneik Anna Sævarsdóttir, Willum Þór Þórsson, Pétur H. Blöndal, Steingrímur J. Sigfússon, Árni Páll Árnason og Guðmundur Steingrímsson.

Mér sýnist á þessu að allir nefndarmenn nema einn riti undir álitið. Einn kann að hafa verið fjarverandi, en það var samstaða í nefndinni eins og fyrr kemur fram og allir rita undir álitið án fyrirvara.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.