143. löggjafarþing — 81. fundur,  26. mars 2014.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Allt frá árslokum 2011 hefur verið samningslaust milli Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu og sveitarfélaga þar og ríkisins um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu. Staðið hafa nokkrar deilur milli aðila eins og gengur en þó virðist þeim sem hér stendur að ekki beri svo ýkja mikið í milli.

Síðast þegar ég átti leið á slökkvistöðina í Reykjavík kom í ljós að viðræður stóðu yfir milli ríkisins og sveitarfélaganna á svæðinu. Á ruv.is í gær sagði að nú væru verklok sjúkraflutninga undirbúin, þ.e. að þær viðræður sem hér hefðu átt sér stað undanfarnar vikur og mánuði hefðu ekki borið árangur. Reyndar er haft eftir slökkviliðsstjóra að engin svör hafi borist frá velferðarráðuneytinu og að málið sé því í óvissu.

Það er óþolandi aðstaða að málið sé í þessum farvegi vegna þess að eftir því sem mér sýnist best mun það kosta ríkissjóð meira ef þessi starfsemi fer frá slökkviliðinu hér og að auki mun þjónusta við íbúa höfuðborgarsvæðisins versna frá því sem nú er. Það er því mjög brýnt að á þessu máli verði tekið hið fyrsta. Ég skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir því að um þetta mikilvæga mál verði fengið samkomulag sem dugar.