143. löggjafarþing — 81. fundur,  26. mars 2014.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir notaði þennan hátíðisdag í sögu Framsóknarflokksins til að gefa yfirlýsingu: Það á að standa við loforð. En það var einmitt vegna þess að ríkisstjórnin stóð ekki við loforð sín um að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við Evrópusambandið heldur lagði fram tillögu um hrein slit sem svo mikill styr hefur staðið um það mál. Það hefur slitið þjóðina í sundur, 53 þúsund manns, um 3 þúsundum fleiri en kusu Sjálfstæðisflokkinn við síðustu kosningar, hafa skrifað undir kröfu um að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla. Þúsundir manna mæta á mótmælafundi fyrir utan Alþingi Íslendinga. Samt sem áður blasir við að það er eins og ríkisstjórnin hafi ekkert lært af þessu. Að minnsta kosti sýnist mér sem stjórnarliðar séu að sameinast í því að ætla ekki að taka þetta mál til afgreiðslu áður en þing stendur upp fyrir sveitarstjórnarkosningar. Þar eru bersýnilega samantekin ráð um að ýta málinu fram yfir sveitarstjórnarkosningar.

Ég tel hins vegar æskilegt að málið komi á dagskrá áður. Ég tel að stjórnarandstöðunni verði ekkert að vanbúnaði að leggja fram álit sín á þann hátt að hér verði hægt að ræða málið strax eftir páska. Þá mun ríkisstjórnin þurfa að standa frammi fyrir því annaðhvort að halda áfram að brjóta loforð eða tosa þessu máli út af borðinu og draga tillöguna til baka.

Mér sýnist hins vegar að hæstv. utanríkisráðherra hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann lýsti því yfir við hvern hljóðnema sem hann komst í talfæri við í gær að það hefðu verið mistök af hans hálfu að leggja málið fram með þeim hætti sem hann gerði.

Hvað gera menn þegar þeim verða á mistök? Þeir bæta fyrir þau. Hvernig er hægt að bæta fyrir þetta? Með því að draga þessa tillögu til baka. Ég skora í nafni friðarins á hæstv. utanríkisráðherra að gera það.