143. löggjafarþing — 81. fundur,  26. mars 2014.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég taka undir hvert einasta orð sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson mælti hér og fagna því loforði sem þingflokksformaður Framsóknarflokksins gaf um að loforð skuli standa. Það skal þá líka standa sem framsóknarmenn og sjálfstæðismenn lofuðu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við ESB.

Ég ætla að gera áfram að umtalsefni menningarsamninga við nokkur landshlutasamtök úti á landi, en ég hef fengið gögn um þá og var umræða hér í gær þar sem menn töluðu um að eingöngu væri verið að skerða menningarsamninga um 10%, þannig var umræðan í gær.

Virðulegi forseti. Ég beindi einu sinni óundirbúinni fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem er ábyrgðarmaður atvinnuvegaráðuneytisins, og spurði hann út í fjárframlög sem áttu að koma frá því ráðuneyti til menningarsamninga. Hæstv. ráðherra taldi sig ekki geta svarað því og sagði að frekar ætti að spyrja iðnaðarráðherra um það. Nú eru komnar upplýsingar um að iðnaðarráðuneytið eða atvinnuvegaráðuneytið, eða hvað við eigum að kalla það, ætli ekki að leggja fram þær 5,7 millj. kr. sem það hefur gert í hvern af menningarsamningunum sem eru sjö talsins. Það gerir niðurskurð upp á 40 millj. kr. Miðað við þau samningsdrög sem hæstv. menntamálaráðherra sendi loksins út í gær, hálftíma fyrir utandagskrárumræðu um þetta mál, er talað um að sveitarfélögin leggi 40% á móti. Þannig má leiða líkur að því með lauslegum útreikningi að það séu tæpar 60 millj. kr. sem þessi ríkisstjórn er að svíkja og skera niður til menningarsamninga og er þar með ríkisstjórnin, með menntamálaráðherra í broddi fylkingar, að veita þung högg, jafnvel rothögg, ef ekki að eyðileggja menningarsamninga á landsbyggðinni til framtíðar.

Ég segi aðeins: Mikil er ábyrgð (Forseti hringir.) þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fyrir að ætla að gefa rothögg þeim miklu og góðu samningum sem hafa verið í gildi og hafa skilað svo miklu úti um allt land.