143. löggjafarþing — 81. fundur,  26. mars 2014.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. 1.300 millj. kr. er kostnaðurinn við þrjár rannsóknarskýrslur Alþingis, bankaskýrsluna, Íbúðalánasjóðsskýrsluna og sparisjóðaskýrsluna sem við bíðum reyndar enn eftir. Endanlegur kostnaður verður væntanlega um 1,4 milljarðar kr. við skýrslurnar þrjár.

Bankaskýrslan kostaði 453 millj. kr. Þetta var um margt merkileg skýrsla sem gaf okkur góða yfirsýn yfir hrunið og orsakir þess. Þeim fjármunum var ekki illa varið.

Íbúðalánasjóðsskýrslan kostaði 250 millj. kr. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar metur það svo í ítarlegu áliti að skýrsluna hefði mátt vinna mun betur. Persónulegar árásir og pólitískar dylgjur einkenna hana.

Rannsóknarnefndin ræddi ekki einu sinni við marga þá aðila sem tengdust málinu og við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd erum ekki ein um þetta álit. Fyrrverandi ríkisendurskoðandi segir það sama. Hann hefur aldrei séð önnur eins vinnubrögð.

Kostnaður við sparisjóðaskýrsluna er kominn yfir 600 millj. kr.

Engar kostnaðaráætlanir lágu fyrir þegar þingsályktanir um þessar skýrslur voru samþykktar. Í nokkrum tilvikum fóru nefndarmenn sjálfir í að reyna að búa til kostnaðaráætlanir og meta umfang verksins. Þær kostnaðaráætlanir stóðust ekki, reikningar streymdu inn í þingið og þeir voru greiddir án gagnrýni.

Ég er ekki að gagnrýna að Alþingi hafi samþykkt gerð rannsóknarskýrslna. Við þurfum slíkar skýrslur og gagnrýni mín hefur ekkert með það að gera að við erum í pólitík og í ólíkum flokkum. Við hljótum hins vegar að vera sammála um að nauðsynlegt sé að hafa gott eftirlit með kostnaði. Við hljótum líka að vera sammála um að nauðsynlegt sé að afmarka verkefnið vel. Opinn tékki gengur ekki. Þingmenn sem dagsdaglega ráðskast með fjármuni almennings hafa fallið eftirminnilega á þessu prófi og það er staðreynd málsins.