143. löggjafarþing — 81. fundur,  26. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[15:41]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég þakka sömuleiðis hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir frábært samstarf í þessu máli. Við gengum fordómalaust til verks og ákváðum að byrja ekki í pólitískum skotgröfum. Þannig tókst okkur að lenda málinu og má formaður nefndarinnar, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, eiga mikla þökk fyrir það hvernig hann nálgaðist málið með nefndinni. Megi það vera til fyrirmyndar í öðrum málum vegna þess að lagt var af stað í þetta mál með stríðshanskann á lofti. Það átti að henda því. Hið sama finnst mér vera að gerast með rammaáætlun, hún er í miklu uppnámi. En von mín er sú að við getum náð sams konar vinnulagi hvað varðar lendingu í því máli á næstu vikum og missirum þannig að náttúra Íslands sé ekki alltaf bitbein stjórnmálaafla í samfélaginu og að þjóðin sé ekki alltaf klofin í herðar niður vegna umræðu um nýtingu eða verndun á íslenskri náttúru. Þetta er mikilvægt fyrsta skref og vonandi tekst okkur að halda svona áfram á þessu sviði.