143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[16:00]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri samstöðu sem náðst hefur á vettvangi umhverfis- og samgöngunefndar um að hafa vit fyrir hæstv. ráðherra sem gekk fram af fáheyrðum fruntaskap með framlagningu þessa frumvarps. Eftir stendur hins vegar að mörg verk eru óunnin í náttúruvernd á Íslandi. Við sjáum hvernig ráðherrann hefur gengið fram varðandi afmörkun friðlands í Þjórsárverum, við sjáum afstöðu í anda Orkustofnunar og Landsvirkjunar til rammaáætlunar og hvernig þessir aðilar beita fyrir sig langsóttum lagatúlkunum til þess að viðhalda ófriði um umhverfismál í landinu. Það er mjög mikilvægt að við stöndum saman um það að efla friðinn að þessu leyti og að það verði raunverulega þannig að alvörusátt náist um vernd og nýtingu náttúruauðlinda.

Svo bíður það auðvitað annarrar þingnefndar, utanríkismálanefndar, að koma vitinu fyrir ráðherra þess fagsviðs og fá hann ofan af aðför að friðinum í samfélaginu sem hann hefur efnt til með fáheyrðri tillögu um afturköllun aðildarviðræðna við Evrópusambandið. (Forseti hringir.) Það skiptir miklu máli að þingnefndir standi nú í ístaðinu á þessum tímum gagnvart misvitrum ráðherrum.