143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

smáþörungaverksmiðja Algalífs Iceland ehf. á Reykjanesi.

375. mál
[16:08]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um heimild til að staðfesta fjárfestingarsamning við Algalíf Iceland ehf. um smáþörungaverksmiðju á Reykjanesi. Með frumvarpinu er lagt til að iðnaðar- og viðskiptaráðherra verði fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands veitt heimild til að staðfesta fjárfestingarsamning við félagið Algalíf Iceland ehf. um smáþörungaverksmiðju á Ásbrú í Reykjanesbæ á Reykjanesi í samræmi við ákvæði frumvarpsins.

Fjárfestingarsamningur var undirritaður 28. janúar 2014 með fyrirvara um samþykki Alþingis. Samningurinn er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að auka nýfjárfestingu á Íslandi með áherslu á verkefni sem hafa jákvæð efnahagsleg áhrif í framtíðinni og stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi.

Við ákvörðun um staðsetningu skoðaði félagið fleiri kosti fyrir framleiðsluna, m.a. í Bandaríkjunum. Niðurstaða eigenda var að Ísland væri ákjósanlegt fyrir starfsemina, m.a. vegna tærs vatns og orku frá endurnýjanlegum auðlindum. Fjárfestingarsamningur sá sem hér er leitað heimildar til að staðfesta er þó mikilvægur liður í að tryggja endanlega ákvörðun um að framleiðslan verði staðsett á Íslandi.

Varan sem fyrirhugað er að framleiða á Íslandi heitir Astaxanthin undir vörumerkinu Astalíf, sem er mun auðveldara í framburði, og er framleidd með ræktun og þurrkun á örþörungum. Efnið sem sóst er eftir að framleiða er sterkt andoxunarefni sem aðallega er notað í fæðubótarefni og vítamínblöndur. Framleiðslan er umhverfisvæn og veldur ekki mengun.

Miðað er við að framleiðslan geti hafist á næstu mánuðum og nemur heildarfjárfestingin 2,2 milljörðum kr. Ráðgert er að starfsmenn Algalífs hér á landi verði um 30 árið 2015 þegar reksturinn er kominn í fullan gang.

Gert er ráð fyrir að verksmiðja Algalífs Iceland ehf. muni nota 5 megavött af raforku til framleiðslunnar og hefur þegar verið gengið frá orkusamningi við HS Orku um raforkukaup til 25 ára.

Töluverður virðisauki fellur til við fjárfestinguna sem kemur meðal annars fram í tekjuskatti, aðföngum og þjónustu og eftirspurn eftir vinnu. Ég tel ljóst að verkefnið komi til með að hafa jákvæð áhrif á atvinnuástandið á Reykjanesi. Þó að fjárfestingarverkefnið sé ekki stórt í sniðum má leiða að því líkum að skráð atvinnuleysi geti minnkað um allt að prósentustig á framkvæmdatímanum, þ.e. til ársins 2016, og um 0,2% á rekstrartímanum miðað við óbreytt atvinnuástand á svæðinu.

Félagið óskaði eftir fjárfestingarsamningi við ráðuneytið haustið 2012 og var umsóknin send til sérfræðinganefndar um veitingu ívilnana vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Nefndin var þannig skipuð að iðnaðarráðherra skipaði formann nefndarinnar og þá tilnefndu fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra sinn mann hvor. Nefndin fór fram á að fjárfestingarsvið Íslandsstofu framkvæmdi arðsemisútreikninga vegna verkefnisins. Niðurstaða Íslandsstofu var meðal annars sú að stofnunin telur að verkefnið skili umtalsverðum ábata fyrir íslenskt samfélag samkvæmt þeim forsendum sem eigendur hafa sett fram í rekstraráætlun sinni. Þá er jafnframt bent á að verkefnið sé þjóðhagslega hagkvæmt, jafnvel við umtalsverð neikvæð frávik frá framlögðum áætlunum, svo sem vegna kostnaðaraukningar eða óhagkvæmrar gengisþróunar.

Framganga verkefnisins og fjárfestingarsamningurinn sem hér er til umræðu hefur verið unninn í samstarfi við Reykjanesbæ og sveitarfélagið samþykkti að veita ráðherra heimild til undirritunar fjárfestingarsamningsins.

Í fjárfestingarsamningnum sem liggur til grundvallar frumvarpi þessu er kveðið á um skattlagningu og gjaldtöku vegna starfsemi félagsins. Sú skattlagning og gjaldtaka verður í meginatriðum í samræmi við íslensk skattalög en með nokkrum sérákvæðum. Þær ívilnanir sem kveðið er á um í samningnum eru í samræmi við lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, nr. 99/2010, en þau lög féllu niður um áramótin og unnið er að frumvarpi til nýrra rammalaga.

Þær ívilnanir sem um ræðir í tilviki Algalífs eru eftirfarandi:

1. Tekjuskattshlutfall félagsins verður 18%.

2. Félagið verður undanþegið stimpilgjöldum.

3. Tryggingagjald verður 50% lægra en kveðið er á um í lögum um tryggingagjald.

4. Fasteignaskattur verður 50% lægri en áskilið hámarkshlutfall, samkvæmt samningi við Reykjanesbæ.

5. Gatnagerðargjald verður 30% lægra en samkvæmt gjaldskrá Reykjanesbæjar.

6. Félagið verður undanþegið markaðsgjaldi.

7. Sérreglur gilda varðandi fyrningu eigna.

8. Félagið verður undanþegið íslenskum aðflutningsgjöldum af efnum til reksturs verksmiðjunnar.

9. Ýmis öryggisákvæði eru varðandi upptöku nýrra skatta.

Umræddur fjárfestingarsamningur veitir ívilnanir vegna viðkomandi skatta og gjalda í tíu ár frá því gjaldskylda myndast en að hámarki í 13 ár frá undirritun.

Í fjárfestingarsamningnum er sett þak á umræddar ívilnanir að hámarki 127,2 millj. kr. á núvirði. Um 75% fjárhæðarinnar, þ.e. 95 millj. kr., koma til vegna skatta og gjalda sem annars hefðu greiðst til ríkissjóðs en 25%, um 32 millj. kr., vegna gjalda til sveitarfélagsins.

Samþykkt frumvarpsins kallar ekki á bein útgjöld ríkissjóðs, en í kostnaðarumsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur fram að verkefnið gæti haft allnokkur jákvæð áhrif á tekjuhlið ríkissjóðs á komandi árum.

Samkvæmt bindandi áliti tollstjóra fellur varan í tollflokk í 12. kafla tollskrárinnar sem er utan vörusviðs EES-samningsins. Því er litið svo á að ríkisstyrkjareglur EES taki ekki til starfseminnar eða fjárfestingarsamningsins.

Í fjárfestingarsamningnum er engu að síður tekið fram að ef í ljós komi eftir að starfsemi félagsins er hafin að samningurinn feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð beri félagið ábyrgð á því og eigi ekki skaðabótakröfu á hendur íslenska ríkinu vegna þessa.

Virðulegur forseti. Ég tel að hér sé um að ræða gott mál sem ég vona að við getum sameinast í þinginu um að afgreiða og legg til að málið gangi til hv. atvinnuveganefndar að lokinni þessari umræðu og til 2. umr.