143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

smáþörungaverksmiðja Algalífs Iceland ehf. á Reykjanesi.

375. mál
[16:14]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á sama tíma og ég fagna því mjög að verið sé að gera fjárfestingarsamning við áhugavert fyrirtæki um að hefja starfsemi hér á landi er ég að sama skapi hrygg yfir því að við séum aftur komin á þann stað sem við hurfum frá með lögunum 2010 þar sem verið var að búa til rammalöggjöf um nýfjárfestingar. Við hurfum frá því að ræða í þinginu málefni einstakra fyrirtækja sem hingað vildu koma, fjárfesta og setja niður starfsemi sína.

Það að vera með löggjöf sem er opin og gagnsæ gerir það líka að verkum að menn vita fyrir fram að hverju þeir ganga, en mér finnst að með því að menn hafi látið þau lög renna úr gildi séum við að taka skref til baka.

Málið er í sjálfu sér gott, ég hef ekkert á móti því og mun gjarnan leggja mitt af mörkum til að það geti farið í gegn. Samt vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna voru hin gagnsæju lög um nýfjárfestingar á árinu 2010 látin renna úr gildi án þess að minnsta kosti, ef menn eru í einhverri endurskoðun, að framlengja gildistíma þeirra þannig að menn héldu áfram að vinna með eitt stöðugt umhverfi? Þetta snýst líka um stöðugleika og festu. Við erum með erfiðan gjaldmiðil og eigum erfitt með að laða til okkar erlendar fjárfestingar. Þess vegna skiptir svo miklu máli að umhverfið sé læsilegt og einfalt og í því festa.

Þetta átti að vera liður í því en núna erum við einhvern veginn aftur komin í limbó þar sem ráðherra hverju sinni tekur ákvörðun um hvaða mál hann ber fyrir þingið og hver ekki. Menn eiga þá allt sitt undir honum eða áhuga þingmanna á málum þeirra sem geta verið á alla vegu.