143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

smáþörungaverksmiðja Algalífs Iceland ehf. á Reykjanesi.

375. mál
[16:17]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir jákvæð orð í garð þessa verkefnis sem ég held að sé þannig verkefni að við getum öll verið sammála um að greiða því leið.

Þingmaðurinn spyr af hverju rammalögin frá 2010 hafi verið látin renna úr gildi og hryggði sig á því að við værum núna farin að taka verkefni eitt af öðru og ræða málefni einstakra fyrirtækja á þinginu. Ég get út af fyrir sig verið sammála hv. þingmanni en vil minna þingmanninn á að það er ekki að gerast núna fyrst. Það gerðist í raun í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar þegar hún ákvað að þrátt fyrir að þá væru nefnd ívilnanalög í gildi var engu að síður komið með frumvarp um fjárfestingarsamning og ívilnanir til annars fyrirtækis. Þá á ég við fjárfestingar PCC á Bakka í gegnum þingið. Í rauninni má segja að þá hafi verið byrjað að grafa undan almenna ívilnanakerfinu.

Þegar ég kom að þessum málum í ráðuneytinu var staðan sú að öll þau verkefni sem höfðu verið samþykkt undir ívilnanalögunum voru til rannsóknar hjá ESA sem og kerfið sjálft. Við það taldi ég ekki hægt að una, fór á fund hjá eftirlitsstofnuninni og ræddi þessa stöðu. Við höfum eftir þann fund unnið mjög vel, vil ég segja, með stofnuninni, m.a. náð að klára alla samningana og vinnuna varðandi umrætt fjárfestingarverkefni á Bakka án athugasemda. Við vildum ekki framlengja ívilnanakerfið vegna þess að það var í þessari vondu stöðu (Forseti hringir.) gagnvart stofnuninni. Við munum hins vegar leggja fram frumvarp á næstu dögum um nýtt kerfi sem tekur gildi 1. júlí með nýju byggðakorti frá Evrópusambandinu.