143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

smáþörungaverksmiðja Algalífs Iceland ehf. á Reykjanesi.

375. mál
[16:21]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki síst vegna ábendinga frá ESA sem við ákváðum að framlengja ekki gömlu ívilnunarlögin. Þau eru ekki bara til skoðunar, öll verkefnin sex, heldur eru fjárfestingarsamningar sem gerðir voru undir þeim lögum til rannsóknar hjá eftirlitsstofnuninni sem og löggjöfin sjálf. Á þessum fundi sem við áttum með þeim lagði ég einfaldlega fram eftirfarandi vangaveltu:

Hér erum við með ferli sem virkar greinilega ekki sem skyldi. Þið eruð að rannsaka þessa samninga, þið eruð að rannsaka þessa löggjöf.

Á meðan var allt í frosti. Fyrirtæki sem komu til okkar sögðu:

Þessi listi sem við erum með hérna í löggjöfinni er ágætur, en okkur líst miklu betur á ívilnanirnar sem Bakka-verkefnið fékk.

Það var ekkert sem við gátum gert, við vorum læst í þessu meðan almenna löggjöfin var til rannsóknar. Þess vegna spurði ég einfaldlega:

Hvernig getum við losað þetta? Getum þið haldið áfram að rannsaka fortíðina og það sem þið hafið áhyggjur af þar? Getum við dregið strik í sandinn og horft til framtíðar? Hér erum við nefnilega komin með ríkisstjórn sem vill efla nýfjárfestingar og við getum ekki unað við það ástand að allt sé í frosti.

Þá ráðlagði ESA okkur að gera ekki breytingar á gömlu lögunum eins og reyndar var heldur ekki búið að samþykkja. Fyrrverandi ríkisstjórn hafði gert breytingar sem stofnunin var ekki búin að samþykkja með auknum ívilnunum þannig að þetta var ráðlegging frá þeim:

Komið með nýja löggjöf.

Og við ætlum að gera það.

Ástæða þess að við erum ekki komin með hana er sú að það er verið að vinna að gerð nýs byggðakorts á vettvangi Evrópusambandsins. Þetta mun taka gildi samhliða en ef við náum ekki að klára það fyrir þinglok í vor verður það að vera svo. Við tökum það þá bara í september. Í millitíðinni er ekki meiri skaði en svo (Forseti hringir.) að það er sama ástand og við erum með núna, (Forseti hringir.) við þurfum að koma með hvern samning fyrir (Forseti hringir.) þingið og leita eftir samþykki (Forseti hringir.) hjá stofnuninni.