143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

smáþörungaverksmiðja Algalífs Iceland ehf. á Reykjanesi.

375. mál
[16:33]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil enn og aftur þakka fyrir að málið sé komið hingað inn. Ég held að um gríðarlega spennandi verkefni sé að ræða sem passi mjög vel inn í þá stefnumörkun og umræðu sem hefur átt sér stað á undanförnum árum, þ.e. að við þurfum að tryggja hér fjölbreyttari uppbyggingu atvinnulífs. Ástæðan er náttúrlega afar einföld, við getum ekki sett öll eggin í sömu körfuna hér á landi. Orkufyrirtækin þurfa fjölbreyttari kaupendahóp. Við þurfum líka störf sem laða til sín ungt metnaðarfullt vinnuafl og vonandi náum við heim ungu fólki sem hefur ákveðið að leita frekar eftir góðum störfum erlendis á grundvelli starfa sem geta skapast í sérhæfðum, áhugaverðum hátæknifyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum sem eru að koma með nýja og áhugaverða fjárfestingu og starfsemi hingað.

Við vitum líka að þegar svona ný starfsemi fer af stað einhvers staðar á svæði eins og á Íslandi hefur það líka áhrif í kring og meiri líkur eru á því að til verði klasar fyrirtækja sem geta stutt við starfsemina og það hefur afleiddar afleiðingar. Ég er því mjög spennt að fylgjast með þeirri uppbyggingu sem þarna fer af stað þegar málið hefur verið afgreitt frá þinginu.

Virðulegi forseti. Ég vil annars halda aðeins áfram með það sem ég var að ræða við hæstv. ráðherra áðan, hreinlega til að segja frá því að hugmyndin að baki því að setja almenn lög um ívilnanir hér á landi kom til vegna þess að fram að því höfðu verið gerðir fjárfestingarsamningar mestmegnis við mjög stóra aðila, þ.e. álfyrirtæki. Það eru aðilar sem geta staðið í samningaviðræðum við ríkisvaldið og þjarmað dálítið hraustlega að mönnum, og geta gengið mjög langt vegna þess að þau hafa styrk til þess. Minni og meðalstórir aðilar sem við vildum gjarnan að kæmu hingað, eins og t.d. sú fjárfesting sem hér um ræðir, sátu í raun og veru ekki við sama borð og hinir stóru aðilar sem höfðu mikinn styrk til þess að fara í samninga um ívilnanir og ívilnanasamninga við ríkið.

Svona almenn löggjöf býr til ákveðið skapalón sem hægt er að ganga að og menn vita hvernig lítur út fyrir fram, sama hverrar stærðar fjárfestingin er. Ég tel að ástæðan fyrir því að fleiri aðilar hafa komið og fengið fjárfestingarsamninga, aðila sem má kalla minni fjárfesta og öðruvísi fjárfesta en við höfum hingað til haft sem hafa fengið svona samninga, sé einmitt út af þessari löggjöf og út af því skapalóni sem búið var til. Þess vegna held ég að mjög mikilvægt sé að menn finni lendingu í því að þetta geti haldið áfram, við þurfum svo sárlega á því að halda hér á landi að vera með gagnsæi á þessu sviði.

Við höfum séð fjárfesta hrökklast héðan út af gjaldmiðlinum. Gjaldmiðillinn er erfiður. Það þýðir að við þurfum að beita öllum þeim ráðum öðrum sem við höfum til að vega upp á móti þeim risastóra galla sem er á umhverfi okkar fyrir fjárfesta. Þess vegna skiptir að mínu mati svo miklu að hindranirnar séu sem fæstar, reglurnar séu sem skýrastar og það séu viðmið sem eigi við um alla. Þannig sé það ekki bara undir ráðherra, þingi, tíðaranda hverju sinni komið hverjir í fyrsta lagi fá samning og í öðru lagi hvernig hann er gerður. Ég veit að í þessu tilfelli er miðað við lögin sem runnu úr gildi núna um áramótin, ég er þess vegna ekki endilega að tala um þetta í samhengi við þetta mál, heldur er þetta bara hættan sem við getum horft fram á til lengri tíma ef við höfum ekki skapalón eða ramma utan um það hvernig þetta skuli gert í mjög langan tíma. Þess vegna legg ég á það mjög mikla áherslu, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra reyni að flýta fyrir vinnu við að koma með skapalón hingað inn.

Ég er dálítið undrandi á því að í umræðunni áðan fannst mér hæstv. ráðherra tala eins og þessi mál væru bara öll alveg upp í háaloft og allir þeir samningar sem gerðir hafa verið væru í algjöru uppnámi. Ég hef ekki heyrt neitt um það, en allt í lagi að mál séu skoðuð. Það sem skiptir máli í þessu er að það eru ekki lögin, eins og mátti skilja á ráðherra áðan, eða innihald þeirra sem eftirlitsstofnunin er að skoða heldur framkvæmdin. Gott og vel. Við erum að byrja á þessu sviði og það geta alltaf komið upp ákveðnir byrjunarörðugleikar og þá er að taka á þeim.

Ég legg á það áherslu að við erum, a.m.k. Samfylkingin, boðin og búin til að taka þátt í því að reyna að koma þessum málum í gagnsætt horf þannig að við getum verið með löggjöf sem fjárfestar geta gengið að.

Þá komum við aftur að vandanum sem við lentum í, þ.e. fyrrverandi ríkisstjórn, varðandi Bakka. Þar höfðum við og ég hafði — af því að ég mælti nú fyrir málinu á sínum tíma — lagt mjög mikla áherslu á að svigrúm væri innan laganna til að ganga lengra á svokölluðum efnahagslega köldum svæðum eða þegar menn væru að brjóta ný lönd eða væru langt í burtu, innviðir ekki til staðar o.s.frv. Þau sjónarmið komu fram í greinargerðinni með frumvarpinu á sínum tíma.

Í framkvæmdinni varð þetta ekki raunin. Það er miður. Það var það sem klikkaði kannski í tíð síðustu ríkisstjórnar hvað þetta varðaði. Mig langar að beina því til hæstv. ráðherra í þessari endurskoðun að beinlínis verði kveðið á um það með einhverjum hætti að þegar verið er að nema ný lönd, ef við getum orðað það þannig, þ.e. þegar engir innviðir eru til staðar og menn þurfa að fara í ríkari fjárfestingar út af þeirri staðreynd, geti landnemarnir, ef við getum nefnt fyrsta fyrirtækið á staðnum svo, þ.e. að möguleiki sé fyrir hið opinbera að veita landnemunum hugsanlega einhverjar ríkari ívilnanir á þeim forsendum.

Ég vil því beina því til hæstv. ráðherra, alla vega að hafa það í huga eða skoða það með opnum huga, hvort það gæti verið lausn á þessum málum. Við vitum það báðar að ekki er hægt að setja allar fjárfestingar á einn blett eða tvo. Við munum þurfa í framtíðinni og vonandi verður það þannig þegar Bakki er orðinn fullur að fara þurfi að nema ný lönd annars staðar, og þá vonandi víðar um landið en við höfum horft upp á í dag.

Þetta var það, virðulegi forseti, sem ég vildi nefna. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, án þess að það skipti beinlínis stórmáli fyrir þetta mál, ég er bara forvitin: Ef búið er að samþykkja Bakkalögin, hvað eru menn þá að skoða í hinum málunum, þ.e. hinum fjárfestingarsamningunum, ef innihald laganna og innihald samninganna er í lagi? Hvaða formsatriði voru í ólagi? Og hvað er það sem við getum gert til þess að koma því í lag og í rétt horf? Við liggjum ekki á liði okkar hér að gera það og ýta undir það.

Mér finnst mikilvægt að menn séu með ákveðinn sveigjanleika í löggjöfinni um þetta, að fjárfestingar sem eru á nýjum svæðum þar sem kostnaðarsamara er að koma sér fyrir, að þar geti menn gengið lengra í ívilnunum.

Enn og aftur legg ég á það mjög mikla áherslu að við reynum að halda því verklagi að vera með skapalón, vera með löggjöf að baki. Það er líka betra fyrir ráðherrann að vera með gagnsæja löggjöf að baki svona vinnu. Það er einfaldara á svo margan hátt, ekki bara fyrir ráðherrann, heldur líka fyrir þá aðila sem eru að semja við hið opinbera, að þeir þurfi ekki að vera í löngum tvíhliða samningum við ríkið heldur geti bara gengið svona nokk að ákveðnu kerfi ef þeir uppfylla ákveðnar strangar kröfur sem gerðar eru í löggjöfinni. Þar með erum við heldur ekki að fara í manngreinarálit, þ.e. þá erum við að horfa á verkefnin fyrst og fremst en ekki endilega að fjalla um einstaka fyrirtæki í sölum Alþingis sem alltaf getur orðið mjög erfitt og viðkvæmt.