143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

smáþörungaverksmiðja Algalífs Iceland ehf. á Reykjanesi.

375. mál
[16:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir hér fagna því að sá fjárfestingarsamningur skuli vera kominn hingað til þingsins sem hæstv. ráðherra hefur nú undirritað með fyrirvara um samþykkt þingsins. Ég fagna því auðvitað sérstaklega sem Suðurnesjamaður að þetta sé verkefni sem verður staðsett þar. Talið er að skilyrði séu sérstaklega hagstæð á Íslandi til hátækniframleiðslu af þessu tagi og nálægð við alþjóðaflugvöll, hreint vatn og örugg afhending orku mikilvægt og þess vegna alveg gráupplagt að setja verksmiðjuna niður á Suðurnesjum auk þess sem rými er laust á Ásbrú.

Áætlað að um 30 störf skapist við verksmiðjuna en að sjálfsögðu fleiri á byggingartímanum. Það er gert ráð fyrir að húsnæði verði nýtt upp á 1.500 fermetra en síðan á að byggja við upp á 6.000 fermetra, sem mun skapa störf meðan á uppbyggingu stendur. Framleiðslan lofar góðu. Talið er að það sé mikill og vaxandi markaður fyrir efnið. Þarna er verksmiðja sem ekki mengar og að öllu leyti virðist vera ákaflega ákjósanlegt og gott fyrir svæðið að fá fjölbreytni í atvinnulífið. Við höfum glímt við það á Suðurnesjum að atvinnulífið hefur verið töluvert einhæft. Þegar dregið hefur saman á stórum sviðum höfum við þurft að glíma við erfiðleika.

Þegar kvótinn fór hér á árum áður, á tímabilinu 1990–1995, glímdum við við mikið atvinnuleysi, m.a. var atvinnuleysi á Suðurnesjum árið 1995 5,6%. Síðan fór herinn árið 2006. Landsmenn þekkja þá sögu alla saman. Þar fór stór vinnuveitandi. Þar sem mikill vöxtur var í atvinnulífinu akkúrat á þeim tíma þegar herinn fór vorið 2006 fengu menn margir og flestir atvinnu, en voru auðvitað fyrstir til að missa atvinnuna þegar hrunið skall á árið 2008 og á árinu 2008 byrjaði atvinnuleysið á Suðurnesjum. Það tikkaði fyrr inn á landinu á Suðurnesjum og árið 2008 var ársmeðaltalið í atvinnuleysi hjá okkur 3,7% meðan það var aðeins 1,6% á landinu öllu.

Síðan vil ég rifja upp hvernig staðan hefur verið á undanförnum árum í atvinnulífinu á Suðurnesjum. Við höfum glímt við mjög mikið atvinnuleysi og alls konar aukaverkanir sem því fylgja, sem eru mjög slæmar og margar af félagslegum toga. Árið 2009 var atvinnuleysi á Suðurnesjum 12,8%, 2010 13,1% og síðan þá hefur toppnum verið náð og við unnið á þeim tölum hægt og rólega. 2011 vorum við komin niður í 12,3%, 2012 9,7% og 2013 6,8%. Ef við skoðum árið 2014 fara tölurnar að vísu aðeins upp. Í febrúar síðastliðnum var atvinnuleysistalan 7,7% á meðan hún var 4,4% á landinu öllu, en það geta verið árstíðaskipti sem þarna koma inn því að atvinnuleysið yfir sumartímann hefur verið lægra. Til dæmis var atvinnuleysi í ágústmánuði í fyrra 5,4% á Suðurnesjum þótt ársmeðaltalið væri 6,8%.

Við höfum náð tölunum niður, enda skiptir það miklu máli fyrir svæðið. Þar hefur ferðaþjónustan eða flugstöðin, umsvifin í kringum flugið, skipt langstærstu máli og mestu máli en við þurfum auðvitað að fá inn fjölbreyttari störf.

Ég nefndi áðan að margir Suðurnesjamenn hafi unnið hjá hernum. Það voru fjölbreytt störf en það var aðeins einn atvinnurekandi og þegar hann fór skipti það mjög miklu máli.

Við Suðurnesjamenn höfum verið svolítið óánægðir með að þegar við á erum við flokkuð með höfuðborgarsvæðinu, þegar verið var að tala um styrki til landsbyggðarinnar þurftum við ekki neitt af því við vorum svo nálægt Reykjavík, og svo þegar það hentar ekki er það á annan hátt. Við vorum til dæmis síðasta svæðið sem fékk menningarsamninga og þeir voru miklu lægri fyrir okkur en önnur landsvæði af því við áttum að hafa það einhvern veginn öðruvísi þar sem við vorum svo nálægt Reykjavík, samt er svipaður kílómetrafjöldi frá Reykjavík á bæði Selfoss og Akranes og er til Reykjanesbæjar. Við fengum menningarsamningana árið 2007 en þeir voru lægri en annars staðar á landinu og við fengum ekki vaxtarsamninga fyrr en á síðasta kjörtímabili. Atvinnuþróunarfélagið var ekki heldur stofnað fyrr en á síðasta kjörtímabili í kreppunni þegar vinstri stjórnin var að leggja áherslu á atvinnuuppbyggingu á svæðinu, enda skipti miklu máli að horfa þangað sérstaklega eins og staðan var þar, og það var gert.

Nú er hins vegar staðan þannig að menningarsamningarnir hafa verið mikið skornir niður og það skiptir miklu máli fyrir svæðið, þ.e. vaxtarsamningar, menningarsamningarnir og sóknaráætlunin, bæði í samfélagslegu og efnahagslegu tilliti. Menningarráðin hafa fengið þær fréttir að menningartengd ferðaþjónusta eigi ekki að vera með í menningarsamningunum núna. Það er á borði ráðherra sem hér er, hæstv. ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála, þannig að gott væri ef hún sæi sér fært á eftir að koma inn á hvernig standi á því að menningartengd ferðaþjónusta eigi ekki að fá styrki núna og ekki sé hægt að sækja um styrki í tengslum við menningarsamningana.

Sama er með vaxtarsamningana, ekkert hefur heyrst hvað þá varðar á árinu 2014 og eins og við þekkjum auðvitað voru styrkir til nýsköpunar heilmikið skorið niður. Það hefur áhrif á frumkvöðlasetrið á Suðurnesjum eins og annars staðar á landinu.

Ekkert hefur heldur frést af peningum í sóknaráætlun, hvernig eigi að skipta þeim á milli landshluta. Það er því ýmislegt sem varðar atvinnuuppbyggingu og nýsköpun og menningarstarf sem er í uppnámi vegna þess að stjórnvöld virðast ekki alveg vita hvernig eigi að stíga til jarðar, en allt skiptir þetta máli í atvinnusambandi.

Við erum að ræða fjárfestingarsamning þótt ég hafi farið aðeins út fyrir efnið, þó er það skylt efni, þ.e. atvinnulífið á Suðurnesjum og samsetning þess.

Á síðasta kjörtímabili voru undirritaðir fjórir fjárfestingarsamningar á Suðurnesjum og ekkert landsvæði var með eins marga fjárfestingarsamninga. Það var álverið í Helguvík, sem ég kem betur að á eftir, og síðan voru samningar um gagnaver, það var kísilver, fyrir fiskvinnslu og svo lá á borðinu á árinu 2012 fjárfestingarsamningur fyrir fiskeldi úti á Reykjanesi sem mér er ekki kunnugt um hvort hafi verið undirritaður. Nú er það Algalíf en eins og fram hefur komið var sá fjárfestingarsamningur undirbúinn á síðasta kjörtímabili, þannig að vinstri stjórnin lagði sig fram við að laða að Suðurnesjunum atvinnu og fjárfesta, enda veitti ekki af.

Álverið þarna er stóra verkefnið. Það er síðasta verkefnið sem fékk sérstakan samning áður en almenni ramminn datt inn um fjárfestingarverkefnin. Enn bólar ekkert á því. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra talaði mikið um álverið á síðasta kjörtímabili og vildi meina að það væri vegna þeirrar ríkisstjórnar sem þá var við lýði sem álverið væri ekki farið af stað. Við áttum samtal um þetta, ekki undir fjögur augu heldur meira á síðum fjölmiðlanna þar sem menn voru að kasta ásökunum fram og til baka. En álverið er enn ekki farið af stað. Það er rétt að detta í ár síðan hæstv. ráðherra tók við atvinnuráðuneyti. Ef það var þeirri ríkisstjórn sem var á síðasta kjörtímabili að kenna að álverið fór ekki í gang hljótum við að spyrja af hverju ný ríkisstjórn hefur ekki komið álverinu í gang. Ef það var eitthvað sem síðasta ríkisstjórn hefði átt að gera hlýtur þessi ríkisstjórn að geta gert það, og af hverju er hún ekki búin að því? Þetta eru stóru spurningarnar sem Suðurnesjamenn hljóta að spyrja hæstv. ráðherra að þegar hún á samtal við kjósendur sína á Suðurnesjum.

Virðulegi forseti. Það skiptir mjög miklu máli í því máli sem við erum að tala um, þ.e. fjárfestingarsamning, að almennur rammi verði gefinn og ég fagna því að hæstv. ráðherra boði slíkan almennan ramma.

Mig langar í lokin að vitna í nefndarálit frá iðnaðarnefnd því að iðnaðarnefnd var sammála um löggjöfina um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi sem samþykkt var á 138. löggjafarþingi á árinu 2009–2010. Með leyfi forseta stendur í nefndarálitinu:

„Með frumvarpinu er lagt til að sett verði heildstæð löggjöf sem myndi ramma um þær ívilnanir sem stjórnvöldum, og eftir atvikum sveitarfélögum, er heimilt að veita vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Horfið verður frá því fyrirkomulagi að gera sértæka fjárfestingarsamninga vegna einstakra verkefna á grundvelli sérstakra heimildarlaga frá Alþingi og samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA enda hefur slíkt fyrirkomulag reynst þungt í vöfum, ómarkvisst og ekki boðið upp á nægilegan sveigjanleika til að mæta ólíkum fjárfestingarverkefnum. Með þeirri löggjöf sem hér er mælt fyrir er lagt til að skapaður sé almennur rammi um ívilnandi kjör sem bjóðast vegna nýfjárfestinga hér á landi og þannig með gegnsæjum og markvissum hætti reynt að auka möguleika á því að fá til landsins fjölbreytta nýfjárfestingu, hvetja til innlendrar fjárfestingar og fjölga atvinnutækifærum í landinu.“

Virðulegi forseti. Ég vil leggja áherslu á þetta hér í lokin. Það er ótækt að við séum með þunglamalega aðferð og tökum fyrir eitt og eitt verkefni. Það mikilvægt að vera með almennt viðmið þannig að við þurfum ekki alltaf að horfa á sérhagsmunina. Horfum á almannahagsmunina og setjum ramma, gegnsæjan, skýran og góðan, í kringum alla fjárfestingarsamninga.