143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

smáþörungaverksmiðja Algalífs Iceland ehf. á Reykjanesi.

375. mál
[17:08]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa málefnalegu umræðu. Ég greini jákvæðan tón frá öllum þeim fulltrúum sem hér hafa talað og vænti þess að það muni sjást í afgreiðslu málsins.

Varðandi athugasemdir míns góða félaga, hv. þm. Péturs Blöndals, get ég heils hugar tekið undir að við eigum að stefna að því að lækka hér skatta almennt og ég vil minna hv. þingmann á að við erum að því. Ég deili þeirri skoðun líka að við eigum að stefna að þannig skattkerfi og get upplýst hv. þingmann um að jómfrúrræða mín á Alþingi sumarið 2007 fjallaði einmitt um það. Þá var sú staða uppi að álverið í Straumsvík hafði óskað eftir því að losna undan langtímasamningum sínum og vildi komast inn í íslenska skattkerfið sem þá var orðið hagstæðara en kveðið var á um í þeim samningum. Það er nákvæmlega þannig umhverfi sem við hv. þingmaður viljum stefna að og ég held að við séum algjörlega á þeirri leið.

Hv. þingmaður sagði að hann teldi að öll fyrirtæki væru til í svona ívilnanir og ég get að minnsta kosti glatt hv. þingmann með því að þegar frumvarpið um almenna rammalöggjöf um ívilnanir, sem er væntanlegt á næstu dögum, kemur fram geta öll fyrirtæki sem uppfylla þau skilyrði og eru í nýfjárfestingum komist inn í það, hvort sem þau eru íslensk eða erlend.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon beindi til mín nokkrum spurningum, m.a. hvenær frumvarpið væri væntanlegt. Ég er búin að svara því, það er á lokametrunum í ráðuneytinu. Svo er önnur spurning frá honum um hvort það muni standa öllum til boða. Já, með sama hætti. Ég á ekki von á að miklum efnislegum breytingum en það gætu orðið einhverjar talnabreytingar.

Síðan lofaði ég hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur að athuga hvort það væri mögulegt innan þeirra ríkisstyrkjareglna sem við vinnum eftir að setja inn klausur um verkefni sem væru alfarið á nýjum stöðum, samanber Bakkaverkefnið. Það er nokkuð sem ég mun skoða og get ekki svarað núna.

Hversu mörg verkefni bíða? Þau eru nokkur. Mig minnir að þrjú ef ekki fjögur séu til meðferðar í ívilnananefndinni. Ég á von á því að eitt ef ekki tvö komi til kasta þingsins áður en við förum heim í sumar. Þó vil ég tala frekar varlega vegna þess að þetta er ekki í hendi. En við munum leita eftir samþykki þingsins og látum það ekki tefja ef við náum ekki að klára almennu löggjöfina.

Ég þakka þessa umræðu og vona að hv. atvinnuveganefnd geti sameinast um að klára þetta mál fyrir vorið.