143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[17:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar menn fara að eyða peningum úr ríkissjóði, eins og ég gat um, hlýtur það að eiga að gerast með einhvers konar heimild í fjárlögum. Ef þetta landspítalaverkefni hefði svo verið selt með nýrri verkefnisstjórn eða annað slíkt hefði það komið inn sem tekjur í ríkissjóð. Þannig hefði átt að vinna þetta á sínum tíma en það var ekki gert þannig að þetta var gjörsamlega án heimildar. Ég gæti farið að gefa út milljarða án heimilda fyrir ríkissjóð.

Það er mjög brýnt að menn horfist í augu við vandann varðandi lífeyrissjóðina og átti sig á því hver hann er. Þá fyrst geta menn farið að glíma við að leysa hann. Meðan hann er ekki sýndur vita menn ekkert af honum og þetta er allt frekar óljóst.

Svo er náttúrlega spurningin hvort á þessu sé yfirleitt ríkisábyrgð. Ríkisábyrgð byggir á því að getið sé um skuldbindinguna í fjárlögum eða fjáraukalögum. Hvorugrar skuldbindingarinnar er getið í fjárlögum eða fjáraukalögum. Samkvæmt stjórnarskránni má ekki greiða neitt út úr ríkissjóði nema samkvæmt fjárlögum eða fjáraukalögum — þess vegna var þetta svo merkilegt með Landspítalann — þannig að fjármálaráðherra má ekki greiða út nema samkvæmt fjárlögum eða fjáraukalögum.

Spurning sem við getum þá velt upp er hvort yfirleitt sé ríkisábyrgð á B-deildinni gagnvart opinberum starfsmönnum. Það er þá spurningin hvort menn ætli að standa við kjarasamninga eða ekki.

Við ræðum Íbúðalánasjóð á morgun. Ég geri ráð fyrir að þar inn vanti enn eitthvað. Þó að það sé kannski ekki eins og ýtrustu kröfur eða áætlanir gera ráð fyrir vantar örugglega eitthvað inn í Íbúðalánasjóð.

Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að taka upp þennan vanda og horfast í augu við hann þannig að skattgreiðendur, börnin okkar og fleiri, viti hvað bíður þeirra.