143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[18:03]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með þingmanninum að kannski er ástæða til að hafa ákveðnar áhyggjur af því að fjárlögin gangi ekki eftir, því miður. Ég held að þau hafi ekki verið mjög raunsæ og tel að þótt það hafi átt að boða aukinn aga og forsvarsmenn fjárlaganefndar boði mjög aukinn aga í ríkisfjárlögum og ríkisstjórnin sé það ekki jafn einfalt og þau gera ráð fyrir. Það gæti kostað blóð, svita og tár miðað við þær áætlanir sem hafa verið lagðar fram.

Eins og ég sagði áðan tel ég helst að verið sé að færa hér niður uppsafnaðan halla allt of langt aftur í tímann, burt séð frá því hvenær hann varð til er verið að taka ákvörðun árið 2014 og með henni verið að breyta fjárlögum 2012 sem mér finnst mjög óeðlilegt og tel það ekki góða vinnureglu. Svo bindur maður auðvitað vonir við að þegar nýtt frumvarp um opinber fjármál kemur fram verði fjárhagsramminn lagður fram að vori, væntanlega, og þá aukist líkurnar á því að hér verði yfirveguð umræða sem nái yfir lengri tíma en ekki sé verið að afgreiða eins og sl. haust í þvílíkum hamagangi svo að engu lagi sætti og töluvert breyttist á milli mínútna.