143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[18:23]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja að margar stofnanir eru í vandræðum. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafði gert ráð fyrir því, og strax á árinu 2013, að ekki yrði skorið meira niður hjá heilbrigðisstofnunum. Síðan var haldið áfram. Auðvitað kom leiðrétting á milli umræðna síðasta haust og allt það en samt sem áður standa eftir mikil vandræði hjá heilbrigðisstofnunum af því að þar hefði þvert á móti þurft að byggja upp. Við gerðum okkur alveg grein fyrir því að þarna þyrfti að byggja upp á síðasta kjörtímabili og í okkar framtíðarsýn var það það sem rétt var að gera og eins með framhaldsskólana. Við vorum sammála um að það þyrfti að raða þeim framar í framtíðarsýn þeirra sem stóðu að síðustu ríkisstjórn en það var hins vegar ekki gert heldur haldið áfram að skera niður. Að mínu mati er augljóst að þessar stofnanir munu lenda í vandræðum þó að skylda þeirra sé að vinna þannig úr hlutunum að reyna að sameina lögbundið hlutverk sitt og svo fjárlögin og reyna að skila því út á núlli.

Varðandi stofnanirnar sem eru með hala, gamlan hala, þykir mér skipta mjög miklu máli að það ríki jafnræði með stofnunum og það sé hvatning hjá stofnununum að halda sig innan ramma og hafi þær lent í vanda sé jafnræði með þeim, farið sé eftir ákveðnu ferli, og ég held reyndar tilbrigði sé að því, a.m.k. í fjármálaráðuneytinu, að það þurfi að skerpa á. Mér finnst engin ástæða til annars en að fara yfir þetta með Ríkisendurskoðun og við fáum þá svör við því hvort eðlilegt sé að gera þetta á annan hátt.