143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[18:27]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Lagaumhverfið gerir auðvitað ráð fyrir því að við samþykkjum fjárlög og þar eru ákveðin verkefni undir og gengið er frá þeim. Síðan eru ófyrirséð verkefni, breytingar á tekjum o.s.frv. sem kemur þá í fjáraukalögum og síðan getum við farið í ný verkefni á árinu 2015. Það er ekki gert ráð fyrir nýjum verkefnum í fjáraukalögum, það er ekki þannig og ríkissjóður getur ekki ráðstafað fé nema fá leyfi frá Alþingi. Það er Alþingi sem hefur fjárveitingavaldið, þannig liggur þetta samkvæmt lögunum.

Varðandi Hvanneyri þekkjum við málefni skólans afar vel, við sem höfum setið í hv. fjárlaganefnd. Það er mín skoðun að það hefði þurft að sameina, og ég er sammála hæstv. menntamálaráðherra hvað það varðar, Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskólann. Ég hef skilning á því að hægt sé að færa ákveðin rök fyrir því að setja þar inn meðgjöf, til að greiða fyrir þeirri sameiningu. Við vissum á síðasta kjörtímabili að sameiningin mundi kosta fé en að til framtíðar mundi það ekki aðeins vera gott fyrir skólann á faglega sviðinu heldur líka rekstrarmegin og alls konar samlegðaráhrif, spennandi tækifæri myndast við það að renna saman skólunum tveimur. Báðir mundu græða. Skyldar deildir í háskólanum mundu auðvitað græða á samstarfi Landbúnaðarháskólans og öfugt þannig að ég hefði kosið að við hefðum farið þá leið og lýsi vonbrigðum mínum með að svo skuli ekki eiga að gera.