143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[18:30]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Til umræðu er frumvarp til lokafjárlaga sem ég vildi víkja að nokkrum orðum. Ég vildi fyrst segja í framhaldi af þeirri umræðu sem hér hefur orðið um flutning fjárheimilda milli ára og halaklippingu milli ára að auðvitað er mikilvægt til að tryggja aga í ríkisrekstri að fjárheimildir geti flust milli ára, jafnt jákvæðar sem neikvæðar. Það er mikilvægt að stjórnendur ríkisstofnana sem fara fram úr áætlunum búi við þann aga í umgjörð ríkisrekstrar að þeir viti að umframkeyrslan fylgi til næsta árs alveg með sama hætti og það er mikilvægt að styðja við hófsemd og skynsemi í ríkisrekstri með því að ónýttar heimildir geti flust milli ára.

Í frumvarpinu er allnokkru púðri eytt í að fara yfir stöðu mála að þessu leyti nú þegar horft er til baka til ársins 2012. Ég vek sérstaklega athygli á kaflanum um ráðstöfun á stöðu fjárheimilda í árslok á síðum 84–87 í frumvarpinu þar sem fjallað er um þessa þætti og rakin sjónarmið sem hafa ber í huga að þessu leyti. Það er jákvætt að sjá tilgreindar sérstaklega þær vinnureglur sem farið hefur verið eftir, bæði almennar vinnureglur og svo sérstakar reglur um meðferð afgangsheimilda annars vegar og umframgjalda hins vegar. Ég met það jákvætt að með þessum hætti skuli vera skýrt sett fram hvaða viðmiðum er beitt. Það er alveg rétt sem hér kom fram í umræðunni áðan að mjög mikilvægt er að jafnræðis sé gætt við meðferð þessara mála, afgangsheimilda og umframgjalda, og að það sé ljóst hvaða efnislegu viðmiðum verði beitt um slíka þætti.

Ég vil líka segja að gríðarlegar ónýttar fjárheimildir eru að flytjast á milli ára þrátt fyrir þær vinnureglur sem hér er beitt. Nægir að nefna heimildir upp á vel á annan milljarð í Framkvæmdasjóði aldraðra og í ofanflóðasjóði, jafnframt hjá Háskóla Íslands, Úrvinnslusjóði og Fjármálaeftirlitinu.

Það sem ég vil hins vegar sérstaklega gera að umtalsefni í þessu samhengi er halaklippingin sem er greind á bls. 79 í frumvarpinu, ákvæði um sérstaka afléttingu rekstrarhalla frá fyrri árum sem byggir á því verklagi að horfa til uppsafnaðs rekstrarhalla fram til ársins 2009 og að meta það við stofnanir ef tekið hefur verið á fjármálastjórn þannig að ekki hafi bætt í hallann en hann sé samt svo umtalsverður að hann nemi í árslok 2012 umfram 4% af fjárlagaveltu viðkomandi stofnunar og að hún hafi ekki fengið á tímabilinu framlag vegna hallareksturs í fjáraukalögum.

Ég vil sérstaklega gera þetta að umtalsefni vegna þess að þarna fá þrjár stofnanir halaklippingu, Landspítalinn, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Lögreglustjórinn á Suðurnesjum. Mér finnst þetta skynsamlega að verki staðið og hróss vert því að það er mjög mikilvægt að það sé farvegur í lokafjárlögum til að taka á aðstæðum sem öllum er ljóst að eru afleiðing löngu liðinna atburða og ekki möguleiki að beita rekstraraðhaldi til að ná niður hala upp á slíka fjárhæð. Í tilviki Landspítalans hefur þetta verið sérlega áberandi á undanförnum árum. Hann hefur lengi glímt við halla sem algjörlega hefur verið ljóst að hafi verið ómögulegt að taka á með afgangi frá rekstri frá einu ári til annars og mikilvægt að yfirstjórn ríkisfjármála meti með þessum hætti við stofnanirnar þann aga sem þær hafa sýnt í ríkisrekstrinum og í rekstrarumgjörðinni á undanförnum árum.

Ég vil að öðru leyti láta nokkur orð falla um að það er ánægjuefni að horfa á lokafjárlög ársins 2012 og sjá að við erum raunverulega að loka þessu ári sem er það næstsíðasta af erfiðleikaárunum í kjölfar hrunsins. Það er óhjákvæmilegt á þessum tímapunkti að horfa til baka og gleðjast yfir þeim árangri sem náðst hefur í ríkisfjármálum með öguðum aðgerðum frá grunni. Það er merkilegt að það er nokkurn veginn sama hvert maður fer á alþjóðlegum vettvangi, við hvaða erlenda kollega maður talar, árangur okkar í glímunni við hallann á ríkissjóði frá árinu 2008 vekur hvarvetna eftirtekt og aðdáun og það að okkur hafi tekist að ná þessum halla niður svo hratt sem raun ber vitni án þess að vega að rótum velferðar í landinu, án þess að gera það sem flestar þjóðir í alvarlegum efnahagsvanda hafa gert á undanförnum áratugum — sem er að selja burt auðlindir sínar til áratuga. Þvert á móti jukum við á sama tíma tekjur okkar af auðlindum þvert á það sem flestar aðrar þjóðir hafa leiðst til að gera. Við vörðum samfélagslegu umgjörðina, vörðum vel kjör þeirra sem minnst hafa milli handanna. Við lögðum okkur sérstaklega fram um að láta aðhaldið í ríkisrekstrinum bitna sem allra minnst á þeim sem minnst hafa milli handanna, jafnvel svo mjög að hæstv. fjármálaráðherra hefur gert það ítrekað að umtals- og kvörtunarefni að svo vel hafi verið haldið utan um hagsmuni þeirra sem minnst hafa milli handanna á undanförnum árum að nú sé brýn þörf að létta sköttum af þeim sem mest hafa milli handanna vegna þess að þeir séu svo hart leiknir.

Það er ekki ánægjuefni að hafa þurft að hækka skatta á undanförnum árum en það er sérstakt fagnaðarefni að hafa náð að gera það með þeim hætti að aðhaldsþörfin í ríkisrekstrinum skyldi að langmestu leyti bitna á hæstu tekjuhópunum. Greiningar háskólastofnana hafa sýnt fram á að munurinn var svo gríðarlegur að kaupmáttarrýrnunin á fyrstu tveimur árum frá hruni hjá þeim 10% sem minnstar tekjur höfðu var innan við 7% á sama tíma og hún var nærri 30% hjá þeim 10% sem mestar tekjurnar höfðu. Skurðpunkturinn var í kringum 70% þannig að 70% tekjubilsins njóta í einhverju aðgerða stjórnvalda til að draga úr kaupmáttarrýrnun og þau 30% með mestar tekjurnar máttu þola meiri rýrnun kaupmáttar en meðaltalið.

Þetta er sagan í hnotskurn. Ég vil bara fara um hana nokkrum orðum núna þegar verið er að afgreiða frumvarp til lokafjárlaga vegna þess að þetta er saga sem skiptir mjög miklu máli að halda til haga. Það var aldrei sjálfgefið að Ísland héldi efnahagslegu sjálfstæði sínu í kjölfar efnahagshruns. Til þess þurfti samstillt átak og einbeittan vilja. Við sjáum það hér líka þegar við horfum á stöðu stofnananna sem gengu í gegnum þessa aðlögun að það er auðvitað hróss vert og rétt að láta orð falla um það með hvaða hætti forstöðumenn ríkisstofnana tóku á málum í kjölfar hruns og hversu vel gekk að halda aga í ríkisrekstrinum. Það var ekki heldur gefið.

Í mörgum þeirra ríkja sem hefur gengið erfiðlega að fóta sig í kjölfar efnahagskreppa er það vegna þess að það er sama hvað ríkisstjórnir ákveða, það gerist ekkert í raun og veru. Menn geta samþykkt hvað sem þeir vilja í fjárlögum en ef innviðir samfélagsins eru ekki það sterkir að þeir ráði við að tryggja að hlutirnir verði raunverulega að veruleika komast menn hvorki lönd né strönd. Það er hinn stóri ávinningur Íslands og það er það sem við getum öll saman verið svo stolt af, hinum mikla samfélagslega árangri að við skyldum hafa kerfi sem virkaði. Í mörgum öðrum löndum samþykkja ríkisstjórnir alls konar áætlanir um hækkun skatttekna en ekkert virkar. Engir skattar eru innheimtir, engin greiðslukerfi virka. Hér virkaði allt.

Þegar við horfum til baka er þetta tilefni til þess að við séum stolt yfir innviðum íslensks stjórnkerfis og getu okkar til að takast á við erfiðleika. Ég held satt að segja að þegar við horfum til baka yfir þetta tímabil getum við verið óskaplega stolt yfir framganginum og sérstaklega árangrinum í ríkisrekstrinum. Það er rétt að ítreka í lokin hrós til forstöðumanna ríkisstofnana og starfsmanna þeirra, lykilstarfsmanna sem tryggðu að það var hægt að takast á við minnkandi fjárheimildir og raunverulega láta ríkisreksturinn laga sig að nýjum aðstæðum.