143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[18:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er svolítið sammála því, það er náttúrlega hætt við því ef ríkisreksturinn hreinlega klúðrast á þann hátt sem jafnvel var útlit fyrir á sínum tíma að öfgaöfl komist til valda sem fara að gera alls konar hluti sem gerast ekki í lýðræðissamfélögum, alla vega ekki í lýðræðissamfélögum sem heppnast. Því miður sjáum við núna ákveðna þróun víða í Evrópu þar sem svokölluð hægri öfgaöfl virðast vera að rísa, sem er mjög mikið áhyggjuefni fyrir mér. Ungverjaland er ekki einu sinni kallað lýðveldi lengur sem er skelfilegt og ekki bætir úr skák þegar þingmenn í Úkraínu hreinlega berja útvarpsstjórann til hlýðni, beinlínis og bókstaflega beita líkamlegu ofbeldi til þess og virðast ekki einu sinni skammast sín fyrir það heldur þvert á móti hreykja sér af því. Það er mjög raunveruleg og alvarleg hætta þegar mjög illa fer, það er rétt. Það er alveg tilefni til að minnast á það hversu mikilvægt er að hafa ríkisbúskapinn í lagi.

Hv. þingmaður nefndi að þegar maður talar um 214 milljarða kr. halla er ekki víst að allir átti sig á hvað það þýðir. Það er náttúrlega, hvað á maður að segja, ákveðin tegund af ógagnsæi sem ekki er hægt að komast hjá vegna þess að fólk þarf að skilja orðin. Því er hægt að nota alls konar líkingar til þess að reyna að útskýra gang mála og er það vel en persónulega hefði ég sagt að við þyrftum að fá að láni 214 milljarða kr. til að láta þetta ganga. Þetta eru væntanlega tölur frá 2009/2010, eitthvað því um líkt. Ég segi oft: Við þurfum að borga 75 milljarða kr. í vexti og taka til þess 35 milljarða kr. lán. Þannig tala ég við mína stuðningsmenn. Ég nefni sérstaklega þegar talað er um A-hluta, B-hluta og C-hluta sem ég og hv. þingmaður skiljum vel en almenningur á kannski erfitt með að átta sig á hvað það nákvæmlega er. (Forseti hringir.).

Þess vegna velti ég fyrir mér hvort ekki sé hægt að ná meiri sátt við almenning með því að skýra þessi mál, auka gegnsæið og bæta orðaforðann.