143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[18:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er ekki með tölurnar tiltækar en ég þykist hafa séð samanburð í síðasta fjárlagafrumvarpi milli ára í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu frá því í haust sem sýndi að samleitnin milli árangurs fjárlagafrumvarps annars vegar og lokafjárlaga hins vegar hafi aukist mjög á þessu árabili og ef frá eru talin atvik sem beint má rekja til hrunsins, eins og auðvitað framúrakstur á þessum síðustu árum með sérstökum útgjöldum vegna t.d. Íbúðalánasjóðs þar sem voru fullkomlega ófyrirséð útgjöld til sjóðsins, sé ekki hægt að halda því fram að þetta agaleysi hafi aukist, þvert á móti hafi bilið minnkað.