143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[19:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og tek undir með honum að menn þurfa að setja sér það markmið að vera með niðurstöðu úr ríkisreikningi og þar af leiðandi lokafjárlögum helst í janúar, febrúar árið eftir að viðkomandi ár er liðið. Og það er alveg hægt, það er bara markmið.

Síðan er það þessi umræða um agann í ríkisfjármálum árin 2009, 2010 og 2011. Svo vill til að ég spurðist fyrir um þetta, hver niðurstaðan væri samkvæmt fjárlögum, fjáraukalögum og ríkisreikningi fyrir þau þrjú ár. Svarið liggur fyrir á þskj. 1374 á 141. löggjafarþingi ef menn vilja glöggva sig á þessu. Ég skil ekkert í því að menn séu að væna mig um að fara með rangt mál þegar ég er búinn að fá svar við þessu frá þáverandi fjármálaráðherra. Þar kemur fram að árið 2009 munaði 11 milljörðum á fjáraukalögum plús fjárlögum mínus ríkisreikning, sem ríkisreikningurinn var hærri, og árið 2010 munaði 42 milljörðum á fjárlögum plús fjáraukalögum sem voru reyndar mjög lítil og svo ríkisreikningi. Árið 2011 munaði 49 milljörðum á fjárlögum, fjáraukalögum og ríkisreikningi, samanlagt á þrem árum 101 milljarði. Svo tala menn um að það sé alveg sérstaklega mikill agi á þeim árum á síðasta kjörtímabili. Það getur vel verið að menn haldi það að ef þeir segi það bara nógu oft þá verði það satt.