143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[19:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur átt sér stað um lokafjárlögin og hefur orðið þingmönnum tilefni til að ræða um mikilvægi þess að við gætum áfram aðhalds í ríkisfjármálunum og ekki síst að fylgst verði vel með framkvæmd fjárlaganna.

Hér hefur einnig verið talsvert rætt um mikilvægi þess að við tökum lokafjárlög á dagskrá sem fyrst eftir að viðkomandi uppgjörsári lýkur samkvæmt dagatali og ég hef tekið undir þau sjónarmið í máli mínu í dag. Það hefur verið spurt að því í umræðunni í dag hvort samkvæmt þeim hugmyndum sem unnið hefur verið að um ný lög um opinber fjármál standi til að gera breytingar hvað snertir lokafjárlögin og ég þurfti aðeins að rifja upp hvernig þau mál snúa samkvæmt þeim hugmyndum sem hafa verið kynntar. Í sjálfu sér er ekki hugmyndin að gera neina eðlisbreytingu þó að segja megi að hún skipti máli. Það er þó ekki eðlisbreyting hvað það snertir að það er hugsunin að inn í þingið komi sérstakt þingmál samhliða ríkisreikningi þar sem farið er yfir sömu efnisatriði og almennt er að finna í lokafjárlögum um það hvernig fer með heimildir sem ekki falla niður í árslok, hverjar eigi að flytjast á milli og hverjar að falla niður. Stóra breytingin í því efni verður sú að þetta á að gerast samhliða framlagningu ríkisreiknings og með því verða í raun lokafjárlögin úr sögunni til framtíðar.

Ég ætla að öðru leyti ekki að lengja umræðuna. Mér finnst allt hafa komið fram sem máli skiptir og nú hefur fjárlaganefnd góðan tíma til að leggja mat á þær tillögur sem er að finna í frumvarpinu. Ég geri ekki ráð fyrir miklum ágreiningi um þær. Það skiptir hins vegar miklu sem ég vék að í framsöguræðu minni, að okkur takist vel til að vinna á uppsöfnuðum eldri halla víðs vegar í ríkiskerfinu og þar mun fjármála- og efnahagsráðuneytið treysta á samstarf við fagráðuneytin til að greina þyngstu tilfellin, komast að samkomulagi um með hvaða skilyrðum við ætlum á næstu tveimur, þremur árum að vinna okkur í átt til þess að fyrirbyggja frekari uppsöfnun slíks vanda, og um leið hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til að eldri uppsafnaður halli, sem er búið að taka á og er ekki lengur til staðar en óraunhæft er að ætla að fjárheimildir framtíðarinnar muni duga til að eyða, falli niður. Þetta skiptir miklu og þarna mun líka mjög reyna á einstök fagráðuneyti og samstarf við þau, samstarf milli stofnana og fagráðuneyta og síðan samstarf við fjármála- og efnahagsráðuneytið um þá þætti. Það mun ekki standa á fjármála- og efnahagsráðuneytinu að vilja vinna þessu máli framgang þar sem engum er greiði gerður með því að láta eldri uppsafnaðan halla liggja í kerfinu og bíða þess að verða afskrifaður einhvern tíma í langri framtíð.

Ég mælist til þess að málið gangi nú til nefndar og þakka fyrir ágætlega málefnalega umræðu.