143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[19:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þau svör sem hann veitti við ýmsu því sem hefur komið fram í umræðunni. Hann vék að því að unnið væri að endurskoðun á lögum um opinber fjármál og ég vildi inna hæstv. ráðherra eftir því hvenær hann vænti þess að það mál verði lagt fram í þinginu.

Síðan vildi ég spyrja hæstv. ráðherra út í uppsafnaðan eldri halla. Hversu mikill er sá uppsafnaði halli í kerfinu orðinn, vandi sem á eftir að vinna úr? Og hefur ráðherrann lagt mat á hversu mikið af þeim uppsafnaða eldri halla er, eins og hann kallar, óraunsætt að reikna með að verði greitt niður af hefðbundnum fjárheimildum á næstu árum, þ.e. ríkisútgjöldum sem búið er að stofna til og á í rauninni aðeins eftir að gjaldfæra? Það væri gott að fá sjónarmið ráðherrans á því.

Ég þakka síðan fyrir upplýsingarnar sem lúta að því hvernig lokafjárlögin heyra í rauninni sögunni til með því nýja umhverfi sem ráðherrann boðar. Hv. þm. Pétur Blöndal vék að því áðan að í atvinnulífinu væru menn að vinna með reikningsniðurstöður fyrra árs strax upp úr áramótum þess árs, janúar/febrúar, endurskoðuð uppgjör og hv. þingmaður sá fyrir sér að þannig ættu menn að standa að málum í ríkisrekstrinum. Telur hæstv. ráðherra að raunsætt sé að við náum því til að mynda á þessu kjörtímabili?