143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum vímuefnaneyslu.

335. mál
[19:38]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Það er með mikilli ánægju sem ég flyt tillögu til þingsályktunar um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu, til verndar neytendum efnanna, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild.

Það er með ánægju út af því að okkur tókst að fá þingmenn úr öllum flokkum með á þingsályktunartillöguna og hún rímar við það sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur rætt í fjölmiðlum og annars staðar um hvernig hæstv. ráðherra hefur hug á að móta stefnu sem hefur legið í ráðuneyti hæstv. ráðherra.

Flutningsmenn ásamt mér að tillögunni eru Brynhildur Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Haraldur Einarsson, Helgi Hjörvar, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Vilhjálmur Árnason og Össur Skarphéðinsson.

Ég ætla aðeins að grípa niður í ályktunina, ég mun ekki lesa hana í heild sinni en hvet hv. þingmenn og aðra þá sem hafa áhuga á málinu eða málið varðar að kynna sér það mjög vel og þegar það hefur farið til nefndar. Ítarleg stefna er í þessari ályktun, byggð á stefnu frá öðrum löndum en þó íslenskuð. Ég lagði sambærilega stefnu fram á síðasta kjörtímabili þar sem við byggðum hana mjög á portúgölsku leiðinni, en þessi nýja stefna hefur verið mjög svo staðfærð, sem skiptir miklu máli, og meiri áhersla er lögð á til dæmis aðstandendur vímuefnasjúklinga og hvernig hægt er að hjálpa þeim sem glíma við erfiðleika þegar kemur að vímuefnaneyslu.

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að innleiða nýja stefnu í vímuefnamálum þar sem horfið verði frá refsistefnu og byggt á lausnamiðuðum og mannúðlegum úrræðum, á forsendum heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins, til verndar neytendum efnanna, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild.

Heilbrigðisráðherra skipi í þessu skyni starfshóp til að vinna að mótun stefnunnar. Landlæknir, stjórn SÁÁ, ríkislögreglustjóri, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala, Rauði kross Íslands og velferðarsvið Reykjavíkurborgar tilnefni einn fulltrúa hver en einn fulltrúa skipi heilbrigðisráðherra án tilnefningar og verði hann formaður starfshópsins.

Verkefni starfshópsins verði að:

a. gera úttekt á gildandi lagaumhverfi svo afmarka megi viðfangsefnið nákvæmlega og undirbúa lagabreytingar og/eða nýja löggjöf,

b. líta til löggjafar annarra ríkja þar sem horfið hefur verið frá refsistefnu tengdri neyslu ólöglegra vímuefna og tillagna alþjóðlegra nefnda og stofnana á sviði rannsókna í forvörnum gegn vímuefnaneyslu,

c. skapa heildstæða stefnu, sem leggur höfuðáherslu á mannúðlega nálgun og vernd mannréttinda, sem dregur úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu og með því stuðla að auknu trausti jaðarhópa til samfélagsins og þeirra stofnana sem eiga að veita þeim þjónustu og skjól.

Við starfið verði leitað aðstoðar og leiðsagnar hagsmunaaðila og hjálparsamtaka, sem og innlendra og erlendra sérfræðinga eftir þörfum.

Heilbrigðisráðherra upplýsi Alþingi um framgang verkefnisins á þriggja mánaða fresti og skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshóps, sbr. c-lið, fyrir 1. maí 2015 og leggi fram frumvarp byggt á niðurstöðum starfshópsins eigi síðar en á haustþingi 2015.“

Ég ætla að tæpa aðeins á greinargerðinni.

Inngangur. „Það er trú mín að eiturlyf hafi eyðilagt líf margra, en röng stefna stjórnvalda hefur eyðilagt líf miklu fleiri. Við þurfum að horfa á stefnuna og spyrja okkur einlæglega og heiðarlega; virkar hún? Ef hún virkar ekki, höfum við hugrekki til að breyta henni?“ — Það var Kofi Annan, fyrrverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna sem mælti svo á The World Economic Forum í janúar 2014.

Á síðustu árum hafa margir málsmetandi menn vakið máls á því viðhorfi að ríkjandi refsistefna í vímuefnamálum hafi mistekist og nauðsynlegt sé að horfast í augu við það. Þannig hafa fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna, Mexíkós, Kólumbíu og Brasilíu, sem í góðri trú framfylgdu þeirri stefnu í sínum löndum, nú stigið fram og viðurkennt að refsistefna og harka gagnvart neytendum ólöglegra vímuefna hafi verið röng aðferð. Fyrrgreindir forsetar áttu flestir sæti í alþjóðaráði um vímuefnastefnu ásamt Kofi Annan, fyrrverandi aðalritara Sameinuðu þjóðanna. Sumarið 2011 gaf ráðið út skýrslu þar sem færð eru sannfærandi rök fyrir því að stríðið gegn fíkniefnum hafi ekki náð tilætluðum árangri og leita þurfi markvissari leiða sem byggja á mannúðlegum og vísindalegum grunni til að vinna gegn samfélagslega neikvæðum afleiðingum misnotkunar á ólöglegum vímuefnum. Er í skýrslunni lagt til að horfið verði frá refsingum við vímuefnaneyslu og þess í stað litið á neysluna sem heilbrigðisvandamál sem meðhöndla þurfi með þeim úrræðum sem heilbrigðiskerfið býður upp á.

Með þessari þingsályktunartillögu er lagt til að starfshópur verði skipaður sem hafi það meginhlutverk að leggja drög að nýrri stefnu í vímuefnamálum þar sem höfuðáhersla verði lögð á mannúðlega nálgun, vernd mannréttinda og leiðir til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu. Í vinnu starfshópsins verði leitað aðstoðar erlendra og innlendra sérfræðinga eftir því sem þörf er á hverju sinni og leitað eftir víðtæku samráði við alla þá sem hagsmuna eiga að gæta. Lagt er til að starfshópurinn skili heildstæðum tillögum að stefnu í málaflokknum, þar á meðal tillögum að nauðsynlegum lagabreytingum til að ná markmiðum þingsályktunarinnar.

Mig langar aðeins að fara yfir markmið þessarar nýju stefnu:

Helstu markmið þeirrar nýju stefnu sem hér er lögð til eru:

1. að veita neytendum vímuefna og aðstandendum þeirra mannúðlega þjónustu og öfluga mannréttindavernd,

2. að lágmarka margvísleg skaðvænleg áhrif sem neysla ólöglegra vímuefna hefur fyrir neytendur efnanna, aðstandendur þeirra og samfélagið allt,

3. að auka traust vímuefnaneytenda til þeirra stofnana samfélagsins sem hafa það hlutverk að veita borgurunum þjónustu og mannréttindavernd,

4. að efla rannsóknir og upplýsta umræðu um vímuefni, afleiðingar neyslu þeirra og stefnumótun í málaflokknum,

5. að minnka til lengri tíma eftirspurn eftir ólöglegum vímuefnum, fyrir tilstuðlan öflugra forvarna og gagnvirkra meðferðar- og félagslegra úrræða.

Það felst engin uppgjöf í því að viðurkenna að ólöglegum vímuefnum verður ekki eytt úr samfélagi okkar. Þvert á móti felast í því mikil tækifæri til að horfa á málin frá nýju og heildrænna sjónarhorni. Með nýrri nálgun, sem byggist fyrst og fremst á mannúð og virðingu fyrir mannréttindum, má takast á við margar skaðlegar hliðarverkanir vímuefnavandans og bæta þannig lífsskilyrði vímuefnaneytenda og aðstandenda þeirra til hagsbóta fyrir samfélagið í heild, jafnvel þótt slík stefna hafi ekki það höfuðmarkmið að útrýma vímuefnanotkun í eitt skipti fyrir öll. Það er hagur samfélagsins að sem flestir séu þátttakendur í samfélaginu og sem fæstir lifi og hrærist í undirheimunum.

Sú stefnubreyting sem boðuð er með þessari þingsályktunartillögu hefur að meginmarkmiði að takmarka skaðleg áhrif sem neysla ólöglegra vímuefna hefur á neytendur efnanna, aðstandendur þeirra og samfélagið í heild. Má þar nefna ýmis heilbrigðisvandamál á borð við vannæringu, alnæmi og lifrarbólgu; félagsleg vandamál á borð við heimilisleysi, barnaverndarvanda, brotnar fjölskyldur o.fl.; og ofbeldis- og auðgunarbrot í tengslum við vímuefnaviðskipti, bæði gagnvart vímuefnaneytendum og aðstandendum þeirra.

Það er trú flutningsmanna að með því að hlúa betur að þeim sem ánetjast hafa ólöglegum vímuefnum, viðurkenna mannréttindi þeirra og mæta þörfum þeirra af mannúð megi bæta lífsskilyrði og lífslíkur þessara einstaklinga umtalsvert, án tillits til þess hvort þeir kjósa að hætta neyslu eða ekki. Með því að efla samfélagslega þátttöku og sporna gegn útskúfun vímuefnaneytenda verður hægara um vik að veita þeim viðeigandi heilbrigðis- og félagsþjónustu, auk þess sem samfélagsleg þátttaka neytenda getur einnig dregið úr ýmsum skaðlegum samfélagsáhrifum sem neyslan hefur í för með sér. Með afnámi refsinga fyrir neyslu ólöglegra vímuefna verður auðveldara að opna umræðuna, efla vísindarannsóknir og forvarnir sem gæti til lengri tíma haft þau jákvæðu áhrif að draga úr eftirspurn eftir vímuefnum.

Sú stefnubreyting sem boðuð er í tillögunni fellur vel að markmiðum þeim sem sett eru fram í starfsáætlun landlæknis fyrir árið 2014. Í áætluninni kemur fram að vinna skuli markvisst að heilsueflandi samfélagi sem stuðli að heilbrigði og vellíðan. Meðal meginverkefna embættisins þar að lútandi er að „draga úr skaðlegum áhrifum áfengis-, tóbaks- og vímuefnaneyslu með markvissum aðgerðum og fræðslu“ og í öðru lagi eigi að „stuðla að öruggum aðstæðum og sporna gegn ofbeldi og slysum í samfélaginu.“

Í stefnu í áfengis- og vímuefnavörnum til 2020, sem gefin er út af velferðarráðuneytinu í janúar 2014, er lögð áhersla á að „bæta skilvirkni og gæði þjónustu með samþættingu og samfellu hennar fyrir þá einstaklinga sem þurfa á aðstoð að halda, auk þess sem þekking, mannafli og fjármunir munu nýtast betur“. Í inngangi stefnunnar segir m.a.:

„Með viðurkenndum og gagnreyndum aðgerðum er unnt að draga úr þeim skaðlegu áhrifum sem neysla áfengis og annarra vímugjafa hefur á einstaklinginn og samfélagið í heild og tryggja velferðarsamfélag þar sem öllum er skapað það umhverfi sem best verður á kosið. Stefna og aðgerðir skulu byggjast á bestu fáanlegu vísindagögnum um skilvirkni og hagkvæmni. Ef vísindagögn skera ekki úr álitamálum skal fara með gát og hafa að leiðarljósi að stuðla að heilbrigði og velferð fólks.“

Framangreind stefna stjórnvalda er ekki ítarlega útfærð og er sett fram með það fyrir augum að unnin verði aðgerðaáætlun til að hrinda markmiðum hennar í framkvæmd. Það er mat flutningsmanna þessarar þingsályktunartillögu að ágætur samhljómur sé milli markmiða tillögunnar og nýsamþykktrar stefnu stjórnvalda. Með samþykki þingsályktunartillögunnar fengi heilbrigðisráðherra umboð frá Alþingi til að hefja útfærslu á stefnu stjórnvalda í þeim farvegi sem tillaga þessi mælir fyrir um.

Mig langar að hvetja þingmenn úr öllum flokkum að taka tillögunni með opnum hug, tillagan fari til velferðarnefndar þar sem hún verði unnin ítarlega og hlustað verði vel eftir tillögum að úrbótum. Ég hlakka til að sjá hvernig þessi nýja nálgun muni verða samfélaginu í heild til bóta og þeim sem hafa þurft að þjást út af núverandi refsistefnu.