143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar.

[10:32]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í gær kynntu forsætisráðherra og fjármálaráðherra útfærslur á tillögum ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu húsnæðislána. Það fékkst staðfest sem við höfðum fengið að sjá fyrr í vetur að í stað þess að kosningaloforð um 300 milljarða frá hrægömmum væri efnt er okkur boðið upp á 70 milljarða leiðréttingaraðgerð fjármagnaða af almennu skattfé. Það er þá endanlega orðið ljóst.

Nú gefst okkur færi á að horfa nákvæmlega á smáa letrið. Hvað er það sem á að gera? Í gærkvöldi birti Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins, á fésbókarsíðu sinni athugasemd þar sem hann vitnaði í 3. gr. frumvarpsins sem nú hefur verið lagt fram þar sem fram kemur að leiðréttingin taki ekki til lögaðila. Hann rekur að öll lán sem Íbúðalánasjóður hefur veitt til byggingar og reksturs félagslegs íbúðarhúsnæðis fyrir tekjulægri fjölskyldur, eldri borgara og námsmenn hafi verið verðtryggð lán og skilyrðin hafi verið að leigjendur hjá þessum aðilum væru mjög tekjulágir og leigan verðtryggð á móti hinu verðtryggða láni.

Forseti Alþýðusambandsins segir: Ég bara skil ekki hvernig ríkisstjórnin getur leyft sér að leggja ekkert í aðstoð við tekjulægsta og eignaminnsta hóp þjóðarinnar.

Húsnæðismálaráðherra Framsóknarflokksins hefur undanfarið haft um það mörg orð að húsnæðissamvinnufélög séu lausnarorð í húsnæðismálum en nú er gengið fram með þeim hætti að nákvæmlega þetta fólk er skilið eftir. Forseti Alþýðusambandsins segir: Hvernig gat Framsóknarflokkurinn staðið að þessu svona?

Óréttlætið er svo augljóst að það er ekki á nokkurn hátt reynt að mæta því fólki sem er tekjulægst, sem borgar samt verðtryggðar skuldir og hefur engin önnur úrræði en félagslegt leiguhúsnæði.