143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar.

[10:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Á að seðja leigjendur með minnisblaði? Hvað á að vera í því minnisblaði? Verður í því minnisblaði tillaga um að húsnæðissamvinnufélög fái sambærilega fyrirgreiðslu og einstaklingar samkvæmt því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram? Ef svo er ekki er minnisblaðið til lítils. Hæstv. forsætisráðherra getur auðvitað reynt að metta þúsundir með minnisblöðum ef hann svo kýs.

Hér stendur eftir að það er búið að svíkja fyrirheitin sem gefin voru í upphafi. 300 milljarðar eru ekki að koma frá hrægömmum inn í þetta verkefni. (Félmrh.: Af hverju …?)

Það er líka ljóst að þeir tekjuminnstu í samfélaginu eru skildir eftir. Það er sérkennilegt að heyra húsnæðismálaráðherra Framsóknarflokksins gjamma fram í þegar það er ljóst að engar efndir er að finna hér (Félmrh.: … rétt …) gagnvart lágtekjufólki. Það er verið að skilja leigjendur eftir.

Síðan er fleira skilið eftir. Hvar er frumvarpið um afnám verðtryggingarinnar sem kallað er eftir í samfélaginu? Hvar er lyklafrumvarpið? (Forseti hringir.) Hvar eru aðrir þættir sem hæstv. forsætisráðherra lofaði digurbarkalega fyrir kosningar? (Forseti hringir.) Lágtekjufólk í landinu er skilið skipulega eftir og af yfirvegun.