143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

tillögur Orkustofnunar um virkjunarkosti.

[10:42]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Samkvæmt þeim lögum sem við búum við skal beiðni um að verkefnisstjórn fjalli um virkjunarkost send Orkustofnun. Ef virkjunarkostur er að mati Orkustofnunar nægilega skilgreindur skal verkefnisstjórn fá hann til umfjöllunar og Orkustofnun getur einnig að eigin frumkvæði falið verkefnisstjórn að fjalla um virkjunarkosti. Verkefnisstjórn getur að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni endurmetið virkjunarkosti og landsvæði sem gildandi áætlun nær til og lagt til breytingar á henni. Það á þó ekki við ef gefið hefur verið út leyfi til viðkomandi virkjunar eða hún hefur verið friðlýst.

Í stuttu máli má segja að ekki virðist annað að sjá en að Orkustofnun sé að framfylgja ákvæðum laganna frá 2011. Auðvitað má deila um hvernig þetta er sett fram og rökstutt af hálfu Orkustofnunar en það er ekki neitt sem ráðuneytið á að hafa yfirumsjón með. Orkustofnun er falið þetta hlutverk í lögunum og óeðlilegt að ráðuneytið eða ráðherra sé of mikið með puttana í því hvernig Orkustofnun stendur að því.

Þá vil ég reyndar geta þess hér að Orkustofnun heyrir ekki undir umhverfisráðuneytið og þess vegna hefur umhverfisráðherra ekkert komið að þessu máli. Hins vegar skal samkvæmt þeim lögum gera reglugerð um með hvaða hætti virkjunarkostirnir sem Orkustofnun setur fram eru metnir og þeir sendir til verkefnisstjórnarinnar. Að þeirri reglugerð er unnið. Hins vegar hefði verið ágætt að búið hefði verið að vinna þá reglugerð. Það hefur ekki verið gert, hvorki á síðasta kjörtímabili, eftir að lögin voru sett 2011, né fyrr við fyrri rammaáætlanir.

Unnið er að þeirri reglugerð í umhverfisráðuneytinu í samstarfi við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið og þegar sú reglugerð liggur fyrir er kannski komin fram einhver túlkun á lögunum sem menn geta vissulega deilt um í augnablikinu.