143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

verndartollar á landbúnaðarvörur.

[10:52]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að þennan morguninn sé einmitt fyrsti fundur tollahóps sem er að skoða núgildandi tollvernd og þau tækifæri sem felast í viðskiptasamningum sem við höfum gert við önnur ríki er varða tolla. Þetta mál kemur án efa þar til umfjöllunar, tollur á kartöfluflögur, og ég tel það fullkomlega eðlilegt.

Ég vildi gjarnan taka málefnalega og vitræna umræðu um matarverð á Íslandi, matvælaverð út úr búð og á hvaða verði íslenskir neytendur fá vörurnar og hve stórt hlutfall af launum þeirra fer til matarkaupa í samræmi, og bera það saman við ýmis önnur Evrópuríki, til að mynda Norðurlöndin. Við gætum jafnvel skoðað Evrópusambandið sem meðaltal vegna þess að þar komum við býsna vel út. Á Íslandi er matarverð með því lægsta í samanburði við þessar þjóðir.

Ef menn bera sig saman við þjóðir eins og Norðmenn og Svisslendinga erum við umtalsvert lægri, bæði hvað varðar hlutfalli af launum fólks sem fer til matarkaupa en einnig ef maður tekur matarverðið og ber einstakar vörur saman við sambærilegar vörur í öðrum löndum. (Forseti hringir.) Þannig er staðan og væri mjög áhugavert að taka umræðu um (Forseti hringir.) það hvernig við getum lækkað matarverðið við núverandi aðstæður. (Forseti hringir.)

Hver er ástæðan fyrir því að matarverð er svona hátt, m.a. á tollfrjálsum innfluttum vörum?