143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

útreikningur örorkubóta.

[11:00]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í fyrradag voru sagðar fréttir af manni með þroskahömlun sem býr á sambýli. Manninum hafði hlotnast um 4 millj. kr. arfur eftir foreldra sína og við það að fá þennan arf missti hann allar uppbætur á örorkubætur sínar en eftir því sem ég kemst næst eru meðalbætur með framfærsluuppbót til einstaklings sem ekki fær heimilisuppbót heilar 188 þús. kr. fyrir skatt. Þessi maður er núna kominn í þá stöðu eins og allt of margir öryrkjar að endar ná engan veginn saman, enda skil ég svo sem ekki hvernig það á að vera hægt með þessar ráðstöfunartekjur.

Ég spyr því hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttur hvort ekki verði hreinlega að draga úr skerðingarhlutfalli uppbótar, svo sem skerðingarhlutfalli framfærsluuppbótar, eða hækka grunnlífeyri örorkulífeyrisþega þannig að þau geti lifað sómasamlegu lífi.