143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

útreikningur örorkubóta.

[11:03]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið þó að ég sjái ekki alveg hvernig þetta verði til þess að hjálpa þeim einstaklingum sem eru í mjög erfiðri fjárhagslegri stöðu nú þegar. Þær 4 milljónir sem eru upphæðin sem húsnæðiseigendur eiga núna að geta fengið í skuldaleiðréttingu, óháð því hvort þeir eigi í erfiðleikum með að greiða skuldir sínar, eru svo sannarlega ekki aðgerðir til þess fallnar að bæta stöðu þeirra sem búa við hvað kröppust kjör.

Ef engra kjarabóta er að vænta fyrir öryrkja fyrr en með endurskoðun almannatryggingakerfisins vil ég spyrja: Hvenær eigum við von á að sjá eitthvað þar? Það er mjög erfitt fyrir fólk sem er langt undir fátæktarmörkum að bíða endalaust eftir því að kerfið verði endurskoðað.