143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[11:44]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrir vandaða umfjöllun og yfirferð yfir skýrslu sem hlýtur að vera áfellisdómur fyrir þá sem að henni stóðu og þann sem lagði grunninn að gerð skýrslunnar. Þetta er mikið áhyggjuefni fyrir Alþingi, ekki aðeins hinn mikli kostnaður heldur líka hvernig að henni var staðið. Það er grafalvarlegt mál ef andmælaréttur, sem er ein af grunnstoðum mannréttinda og stjórnarskrárinnar, er ekki virtur. Það er grafalvarlegt.

Hv. þingmaður vék aðeins að 90% lánum sem haf verið mikið til umræðu á Alþingi. Allar götur síðan ég tók hér sæti árið 2007 hef ég heyrt, sérstaklega frá þingmönnum Samfylkingarinnar, að þau séu upphaf og endir þess að hér varð hrun. Þeir kannast ekki við að hafa verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum á árunum 2007–2009 en 90% lánin gerðu það að verkum að hér varð hrun. Þannig var umræðan og ég man það mjög vel.

Það sem gleymdist hins vegar var að nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar vildu ganga lengra þegar ákveðið var að fara í þá vegferð og vildu ekki einu sinni bíða eftir áliti ESA, sem ég held að sé áfellisdómur fyrir þá.

Ég furðaði mig á því, vegna þess að ég sat fundinn í nefndinni þegar skýrsluhöfundar komu þangað, af hverju ekki var um það fjallað þegar hið svokallaða hámark var hækkað í tíð þessarar ríkisstjórnar. Mér fannst furðulegt að ríkisstjórnin sem hækkaði hámarkið og hellti olíu á eldinn, mætti segja, fengi ekki einu sinni umfjöllun í skýrslunni. Það hlýtur að segja okkur að við verðum að taka (Forseti hringir.) vinnubrögðin á Alþingi til endurskoðunar (Forseti hringir.) og vanda okkur við gerð slíkrar skýrslu í framtíðinni.