143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[11:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki tekið þátt í þeim leik að þetta hafi annaðhvort verið bönkunum eða Íbúðalánasjóði að kenna. Fjármálakerfið gerði mistök bæði varðandi Íbúðalánasjóð og bankana, enda töpuðu allir þeir aðilar gríðarlegum fjárhæðum, leiddu miklar hörmungar yfir tugi þúsunda heimila, stuðluðu hér að gríðarlegri fasteignabólu sem skapaði heilli kynslóð í landinu ótrúlega erfiðleika, og mér finnst að við í þinginu verðum að játa þann þátt sem að okkur snýr í málinu.

Hitt vil ég spyrja hv. þingmann um að núna eftir efnahagshrunið er staða okkar sú að þeir sem tóku þessi lán í bönkunum hafa fengið miklu ríkulegri leiðréttingar en þeir sem tóku lánin hjá Íbúðalánasjóði. Pólitíska kerfið hefur líka brugðist í því að þeir sem tóku lán hjá einkabönkum og lentu í greiðsluerfiðleikum hafa fengið meiri stuðning, betri skuldaúrræði en fólkið sem fór til ríkisstofnunarinnar Íbúðalánasjóðs. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann hvort við, eftir að við höfum lokið umfjöllun um þessa skýrslu, verðum ekki að vinda bráðan bug að því á Alþingi að tryggja að lántakendur hjá Íbúðalánasjóði njóti sömu afgreiðslu og gert var hjá viðskiptabönkum.