143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[12:21]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég sit í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem áheyrnarfulltrúi og get þar af leiðandi ekki skrifað nefndarálit og get ekki verið á nefndaráliti en ég get lýst mig samþykka nefndaráliti ef svo ber undir. Í þessu máli verð ég að segja eins og er að ég er aðalmaður í fjárlaganefnd, sem er sú nefnd sem ég sit í, og fór mjög mikill tími í nóvember og desember í fjárlaganefnd og ég sat því ekki alla fundina, og þurfti reyndar að sleppa mjög mörgum fundum, í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem verið var að fjalla um þetta mál. Ég er því samþykk hvorugu nefndarálitinu en nefndarálit minni hlutans lýsir kannski betur skoðun minni á málinu. Mér finnst ég samt ekki hafa forsendur til að meta hvort þessi skýrsla sé í megindráttum röng eða rétt eða gefa henni einkunn.

Það eru ákveðin atriði þarna sem meiri hlutinn gagnrýnir og það er til dæmis þegar verið er að meta tap sjóðsins, hvort það sé hægt að reikna sem 270 milljarða eða 64 eins og mig minnir að Íbúðalánasjóður sjálfur haldi fram. Ég veit ekkert um það en það er ljóst að tap sjóðsins er gríðarlegt og það veit í rauninni enginn með vissu hversu mikið það verður því að Íbúðalánasjóður starfar enn þá, en það er vegna þess að ríkið leggur honum til fé á hverju einasta ári og það eru nokkrir milljarðar á ári.

Ég held að vandamálið við skýrsluna og þetta mál sé að það eru eiginlega pólitísk fingraför á því allan hringinn. Þetta er gagnrýni á störf mjög margra en það er kannski ekkert skrýtið því að eins og staðan er í dag hafa ýmis mistök verið gerð.

Varðandi 90% lánið kom fram í máli hv. formanns nefndarinnar að í rauninni hafi Íbúðalánasjóður aldrei náð að veita mjög mörg 90% lán og það er alveg rétt, en Íbúðalánasjóður lánaði svo bönkunum, sparisjóðum og Landsbankanum í þeirri viðleitni að reyna að koma peningum sínum í lóg. 90% lánin og loforð Framsóknarflokksins á sínum tíma finnst mér samt hafa verið svolítið glannalegt því 90% lán til 40 ára, jafngreiðslulán, eru ekki góð hugmynd. Ef ég man rétt sendi Seðlabanki Íslands umsögn um þetta mál og benti á að það ætti þá að stytta lánstímann í 30 ár. Ef það væri 90% lán ætti lánstíminn ekki að vera lengri en 30 ár. Það hljómar skynsamlega, mundi maður halda, en á það var ekki hlustað.

Svo er líka annað sem kemur fram í skýrslunni sem er að Íbúðalánasjóður veitti 90% lán með ákveðnum skilyrðum. Þá voru 20% af láninu á hærri vöxtum, og það er ekkert óeðlilegt, en þakið var lágt, um 8–9 milljónir. Maður velti fyrir sér hvort það hafi virkilega verið nauðsynlegt að fara í þá aðgerð þegar þetta var mögulegt og svo má líka segja að sú ákvörðun að leyfa Íbúðalánasjóði að veita 90% lán hafi orðið til þess að bankarnir fóru að gera slíkt hið sama, þeir voru reyndar fyrri til.

Síðan er það breytingin á kerfinu sem var gerð 2004. Það eru augljóslega gerð mistök þar og þetta með að Íbúðalánasjóður hafi ekki keypt eigin bréf. Allt kemur það fram í skýrslunni og er gagnrýnt. Þá er líka alveg ljóst að gríðarlegur skaði hlaust af lánveitingum til lögaðila og leigufélaga. Það er ansi margt sem fór úrskeiðis og við erum í sjálfu sér ekki búin að bíta úr nálinni með það enn þá og þá er óhjákvæmilegt að einhverjir verði gagnrýndir.

Hvort það hefði átt að veita andmælarétt, það má vel vera. Ég held að það hafi reyndar ekki verið gert í rannsóknarskýrslu Alþingis um aðdragandann að hruni bankanna en ég veit að það er verið að gera í sparisjóðaskýslunni og má vel vera að það sé rétt. Það sem mér finnst mikilvægast í þessu máli er að við lærum af skýrslunni og afgreiðum hana ekki þannig, sem mér finnst svolítill „tendens“ til að gera, að ekkert mark sé á henni takandi, það er ekki svo. Ég get líka tekið undir að það hefði verið betra að hún hefði verið orðuð varfærnislegar. Það er stundum tekið sterkt til orða og það rýrir aðeins skýrsluna en hún er stútfull af staðreyndum og er mikilvægt plagg, þannig að ég held að mjög nauðsynlegt sé að við lærum af henni. Og hvaða lærdóm getum við dregið? Að taka varúðarorð alvarlega. Það komu inn umsagnir og alls konar álit stofnana og hinna og þessara í öllu ferlinu, hvort sem um ræddi 90% lánin eða breytinguna á kerfinu 2004. Kannski var ekki hlustað nógu vel.

Það má segja að þegar stjórnmálamenn lofa einhverju sem virkar of vel til að geta verið satt þá er ástæða til að staldra við og skoða málin betur, hvort sem það er 90% lán eða skuldaniðurfelling. Það getur endað sem kostnaður og áhætta á skattgreiðendum.

Varðandi rannsóknarnefndirnar vil ég taka undir það sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði áðan. Það er áhyggjuefni hversu mikill kostnaðurinn við þær er og að utanumhaldið um rannsóknarnefndirnar virðist eiginlega vera ekki neitt. Þetta er eins og opinn tékki á ríkissjóð og það er ekki gott. Þessi skýrsla tók lengri tíma og kostaði meira en gert var ráð fyrir og það sama á við um sparisjóðaskýrsluna þannig að nú er verið að tala um 1,5 milljarða í rannsóknarskýrslur af almannafé og þá er eins gott að við lærum eitthvað af þeim. (Gripið fram í.) Það eru uppi áhöld um hversu mikið það er. (Gripið fram í: Er það meira eða minna en 1,5 milljarðar?) Það er meira en 1,5 miljarðar, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Það fer mikill peningur í þetta, mikill tími og mér finnst skýrslan á margan hátt góð. Ég hafði gaman af því að lesa hana. Ég tek að sumu leyti undir gagnrýni sem kemur fram í áliti meiri hlutans á hana en almennt held ég að við ættum að læra það af henni að hlusta á varúðarorð og við stjórnmálamenn með okkar góðu hugmyndir ættum stundum að vera tilbúnir til að hlusta á sérfræðinga.