143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[12:38]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar að vara við því að gera lítið úr skýrslum sem Alþingi hefur kallað eftir. Ég er sammála því sem kom fram í máli hv. formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, það er nauðsynlegt að þegar Alþingi kallar eftir skýrslum sé betri yfirsýn og nánari afmörkun á verkefnunum en hefur tíðkast hingað til nema þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var gerð. Þar var góður rammi og gott samskiptaflæði á milli þeirra sem stóðu að þeirri skýrslu og Alþingis.

Það er mikilvægt að við fáum skýra mynd af því hvað fór úrskeiðis í aðdraganda hrunsins og að við lærum af því. Ég get einhvern veginn ekki tekið undir að það sé einhverri einni tegund hagsmunaaðila að kenna hvernig fór fyrir Íbúðalánasjóði. Ég held að það sé margþætt og ég held að hver og einn sem ber ábyrgð á því hvernig fór verði að horfast í augu við það. Mér sýnist á öllu miðað við hvernig fjallað er um þessa skýrslu að við séum komin í hefðbundnar átakalínur um hugmyndafræði.

Það var áhættusækni í sjóðnum, það vitum við öll. Það voru pólitískar óheppilegar tengingar í sjóðnum, það vitum við öll. Ástæða hrunsins og ástæðan fyrir því hvernig fór var ekki eingöngu fjármálakerfinu að kenna eða þeim sem ráku banka. Við skulum öll minnast þess hvernig þessir bankar skiptu um hendur. Mér finnst það töluverð einföldun, með fullri virðingu, að varpa allri ábyrgðinni yfir á fjármálakerfið.

En hvað ætlum við að læra? Miðað við þær umræður sem hér eru finnst mér eins og við ætlum ekki að læra neitt. Við munum þá væntanlega heldur ekki neitt læra af þeirri rannsóknarskýrslu sem verið er að gera um sparisjóðina. Ekki ætlum við að læra mikið af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hér var samþykkt einróma þingsályktunartillaga á sínum tíma en við erum komin mjög stutt með að gera að veruleika allt það sem við ætluðum okkur með þeirri þingsályktun. Við ætluðum líka að reyna að draga einhvern lærdóm af þessu hruni en því miður upplifði ég það ekki sem raunveruleikann.

Ég vil ekki endurreisa neitt gamalt kerfi. Ég vil að við þingmenn höfum framsýni og nýja sýn á það hvernig við ætlum að gera nýtt kerfi. Við getum ekki endurskapað verkamannabústaðakerfið og við getum ekki tjaslað upp á Íbúðalánasjóð í óbreyttri mynd. Eftir hrunið hafa líka verið gerð mörg mistök í Íbúðalánasjóði. Það voru veitt lán sem mér er fyrirmunað að skilja hvernig var hægt að finna röksemdir fyrir. Þá er ég að tala um lán til aðila sem ætluðu til dæmis að byggja leiguíbúðir.

Það verður að gera eitthvað með þær eignir sem eru í Íbúðalánasjóði. Það er neyðarástand á leigumarkaði. Það er neyðarástand hjá mjög mörgum. Allt of margar fjölskyldur, fleiri þúsund manneskjur, búa í ólöglegu húsnæði. Af hverju getur Íbúðalánasjóður ekki brugðist við því? Það er af því að hann er fastur í hefðbundinni gamalli skotgrafaátakalínu úr fortíðinni. Eins og maður heyrir fólk tala hér líður mér eins og ég sé í súrrealískum heimi þar sem ekki er hægt að gera neitt af því að það er alltaf einhverjum öðrum að kenna, einhverjum öðrum stjórnmálaflokki sem þá var við völd o.s.frv.

Ég biðla til ykkar, hv. þingmenn, að við komum okkur út úr þessum ömurlega veruleika. Það er fólk að bíða eftir því að við hlustum á ákall þess. Við erum ekki að hlusta, við erum hér í hefðbundnum átakalínum sem eru mjög þreytandi, óþolandi og niðurdrepandi.

Ég sé ekki neinn skýran lærdóm og það hryggir mig. Margt gagnlegt kom fram í þessari skýrslu en þegar við förum yfir það hvaða lærdóm við ætlum að draga af henni skortir allan vilja og alla sýn til að gera það.

Og það er dapurlegt.