143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[12:50]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég er alveg sammála því sem hv. þingmaður kemur inn á. Það er samt eitt sem var svolítið spes við Ísland og kom mjög skýrt fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, það að þegar bankakerfið hér var einkavætt óx það gríðarlega hratt. Það er mjög óvenjulegt hversu hratt það óx og hversu mikið miðað við hlutfall þjóðartekna. Það var líka til vandræða af því að þeir sem voru í áhættufjárfestingum í bönkunum sem er alveg ótrúlegt hvernig var borgað fyrir — svikamyllan í kringum þá gekk út á að þeir lánuðu hver öðrum í staðinn fyrir að leggja einhverja peninga inn í samfélagið eins og var sagt að væri forsenda þess að einkavæða bankana.

Þegar þeir uppgötvuðu síðan að þeir gætu farið inn á gráa svæðið í EES-samningnum og fært út kvíarnar til annarra landa var voðinn vís. Frelsið er dásamlegt svo framarlega sem þeir sem eru með þessi fyrirtæki ætlast ekki til þess að ríkissjóður bakki þá upp ef illa fer hjá þeim. Það er ekki þannig ef maður fer í spilavíti að maður ætlist til þess að ríkið borgi brúsann ef maður tapar öllu.