143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skatttekjur af hverjum ferðamanni og þróun rekstrarumhverfis ferðamannaiðnaðarins.

[13:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga umræðuefni. Ferðaþjónustan verður æ mikilvægari stoð í efnahagslífi okkar á Íslandi og samkvæmt síðustu tölum hefur hún náð þeirri stöðu að vega hvað þyngst hvað brúttóútflutningstekjur varðar. Ýmsir þættir hafa unnið saman, lágt gengi krónunnar hefur hjálpað til við að koma okkur úr einu af efstu sætunum á listanum yfir þau ríki heimsins sem dýrast er að heimsækja. Lægra gengi krónunnar laðar greinilega fleiri að. Við fengum óvænta og mikla athygli þegar Eyjafjallajökull raskaði flugferðum helstu flugfélaga heimsins og náðum að nýta það sem eins konar tækifæri til sóknar og til að vekja jákvæða athygli á okkur, m.a. með átakinu Inspired by Iceland. Ferðamönnum hefur fjölgað mikið milli ára, um og yfir 20%, og nú stefnir í að þeir nái milljóninni, annaðhvort á þessu ári eða því næsta.

Þessu fylgja eins og málshefjandi vekur athygli á að það hafi í för með sér auknar tekjur fyrir þjóðarbúið en jafnframt fylgir því kostnaður. Bregðast þarf við auknum átroðningi við helstu náttúruperlur landsins og augljóslega þarf ferðaþjónustan að byggja frekar upp til að mæta aukinni eftirspurn. Árið 2003 komu hingað til lands 320 þús. ferðamenn og fjölgaði þá verulega á milli ára, þ.e. um 15%. Tekjur af ferðamönnum voru rúmir 37 milljarðar kr., um 4,4% af landsframleiðslu. Neysla þeirra nam tæpum 25 milljörðum, 2,9% af landsframleiðslu. Tíu árum síðar, árið 2013, komu 808 þús. erlendir ferðamenn til landsins. Nam fjölgunin milli ára 20%. Tekjur voru þá 275 milljarðar, þ.e. 15,4% af landsframleiðslu, og neysla þessara ferðamanna var tæplega 131 milljarður, 7,3% af landsframleiðslu, en var árið 2003 37 milljarðar.

Þetta eru margar tölur í fáum setningum en það sem þær segja okkur er einfaldlega það að ferðaþjónustan hefur styrkst gríðarlega á þessum áratug, hún skilar miklum tekjum í þjóðarbúið og hefur tryggt sér sess sem þriðja meginstoð íslensks efnahagslífs. Helstu skattar sem ferðamenn greiða með beinum hætti með kaupum á vöru og þjónustu eru virðisaukaskattur, sem hv. málshefjandi vék að, vörugjöld, einkum á eldsneyti bifreiða og áfengi og tóbak sem ferðamenn kaupa. Gistináttaskattur hefur verið innheimtur og svo mætti telja hér til gjald sem telst til þjónustutekna Isavia, farþegagjald.

Auk þess eru óbein áhrif á aðra skattlagningu, á laun og hagnað í fyrirtækjum o.s.frv.

Síðustu ferðareikningar Hagstofunnar um skatttekjur af ferðamönnum eru reikningar ársins 2009. Tölurnar ná til skatta af öllum ferðamönnum, íslenskum og erlendum, og eru skattarnir alls 13,4 milljarðar árið 2009 en út frá skiptingu ferðaneyslunnar eftir þjóðernum fæst að skattar af erlendum ferðamönnum hafa verið 7,5 milljarðar 2009.

Þetta er næstum alfarið virðisaukaskattur og flugvallaskattar sem þá voru. Ekki eru til dæmis meðtalin vörugjöld sem þó vega þungt í bensín á bílaleigubílum og áfengi á veitingastöðum sem ferðamenn kaupa. Engin óbein áhrif á skatta eru meðtalin, svo sem tekjuskattur af hagnaði hótela.

Ferðamálastofa áætlar í bæklingi sínum, Ferðaþjónustan í tölum, um árið 2012 að skattar af ferðaþjónustu alls hafi numið rúmum 15 milljörðum kr. árið 2010. Þær tölur munu vera byggðar á óútgefnum tölum frá Hagstofunni og eru ekki til nýrri tölur þaðan.

Boston Consulting Group áætlar í skýrslu sinni frá 2013 að skattar sem ferðamenn skilja eftir sig nemi 17 milljörðum í beinni skattlagningu en 10 milljarðar bætist við ef óbein áhrif á skatttekjur eru meðtalin og þannig fari fjárhæðin alls í 27 milljarða. Þessar tölur miðast við árið 2013.

Varðandi þær breytingar sem gerðar hafa verið á virðisaukaskattskerfinu til ívilnunar fyrir ferðaþjónustuna vil ég meina að það hafi að nokkru leyti ýtt undir þá jákvæðu þróun sem við höfum séð. Ég get tekið undir með málshefjanda að meðaltekjur vegna hvers ferðamanns sem hingað kemur eiga að þróast í rétta átt samhliða auknum fjölda og við hljótum að taka það alvarlega þegar meðaltekjur á hvern ferðamann sem hingað kemur dragast saman. Það ætti ekki að koma á óvart þegar við notum evruna sem mælikvarða vegna þess mikla gengisfalls sem hér hefur orðið, en ef við mælum það í krónum er auðvitað óásættanlegt fyrir okkur að þróunin (Forseti hringir.) sé sú að það séu færri og færri krónur sem koma vegna hvers ferðamanns sem hingað kemur. Við því þarf að bregðast og ég lít þannig á að það sé eitt af helstu verkefnum (Forseti hringir.) þeirrar nefndar sem nú vinnur að endurskoðun virðisaukaskattskerfisins að skoða hvernig breytingar á því geta komið að gagni í þessu efni.