143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skatttekjur af hverjum ferðamanni og þróun rekstrarumhverfis ferðamannaiðnaðarins.

[13:46]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa mjög svo þörfu og góðu umræðu. Það er kannski eins í ferðaþjónustunni og í svo mörgu öðru sem við Íslendingar tökum okkur fyrir hendur að við göslumst svolítið áfram og reddum hlutunum jafnóðum og stundum og jafnvel oftar en ekki eftir á.

Það var mjög áhugaverður morgunfundur um ferðaþjónustuna á vegum Landsbankans í vikunni. Þar voru haldin mjög góð erindi og var virkilega áhugavert að hlusta á Rick Antonson sem er forstjóri og stjórnarformaður Tourism Vancouver í Vancouver-borg sem farið hefur fyrir ferðamálayfirvöldum þar í meira en 20 ár. Hann talaði um mikilvægi langtímahugsunar og stefnumótunar. Ég velti fyrir mér hvort hægt væri að kaupa hann sem ráðgjafa hingað, mér fannst einhvern veginn allt sem maðurinn sagði alveg ótrúlega gáfulegt. Hann minnti okkur á að þessi atvinugrein geti í rauninni horfið ef við vöndum okkur ekki.

Mér finnst varla hægt að tala um ferðaþjónustuna og tekjur af henni nema minnast á aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem ákvað að hækka ekki virðisaukaskatt á gistingu. Ég var mjög mótfallin því, ég tel að ferðaþjónustan geti lagt sitt af mörkum og borgað 14% virðisaukaskatt af gistingu. Þá er líka eiginlega óþolandi, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, varðandi virðisaukaskattskerfið að þar eru alveg ótrúlega margar undanþágur. Ég held til dæmis að ekki sé borgaður virðisaukaskattur af aðgangseyri í Bláa lóninu eða hvalaskoðunarferðum o.fl.

Svo er annað sem verður líka að tala um, við verðum að þora að tala um það, og það er svört atvinnustarfsemi í þessum geira. Það er líka óþolandi að heiðvirð fyrirtæki sem eru með allt sitt á hreinu séu að keppa við fyrirtæki sem eru með allt undir borðinu. Ég vona að ríkisskattstjóri og stjórnvöld taki á því máli og að ríkisskattstjóri muni ekki hafa allt of mikið að gera í skuldaniðurfellingarmálum þannig að hann geti áfram (Forseti hringir.) sinnt því.